139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef tillaga hæstv. forsætisráðherra hefði verið samþykkt á sínum tíma væri staða okkar — ja, ætli hún væri ekki nokkurn veginn vonlaus, í fljótu bragði sýnist manni það. Í það minnsta hefði allt það sem eftir gekk eftir hrunið verið miklu erfiðara. Ég held að þegar menn skoða söguna og það sem gerðist sjái þeir að það góða mat sem bankarnir fengu frá matsfyrirtækjunum, sem var alveg furðulegt, lengst fram á árið 2008 hafi að stórum hluta komið til út af góðri stöðu ríkissjóðs. Ég held að það hljóti að hafa legið til grundvallar, í það minnsta voru þessi fyrirtæki ekki að skoða bankana, það er algjörlega ljóst.

Ef menn hefðu verið með það leitt í lög að við mundum ábyrgjast allar innstæður, ekki bara með innstæðutryggingakerfi eins og okkur var skylt að gera, hefði Icesave-deilan orðið mun erfiðari og hatrammari þegar menn hefðu getað bent í íslenska lagatexta máli sínu til stuðnings, Bretar og Hollendingar og Evrópusambandið.

En það sem mér finnst vera verst í þessu, virðulegi forseti, og það er alveg rétt, það er ekkert hlustað hérna — hinn ágæti þingmaður, hv. þm. Magnús Orri Schram, hefur mjög margt til síns ágætis en hann lítur því miður svo á, eins og margir hv. þingmenn, að þetta sé bara eitthvert verkefni til að klára og menn eigi bara að vona hið besta. (Gripið fram í: Kjaftæði.) Við skulum bara, já, segja það eins og það er, bara vona hið besta. Það er alvarleikinn í þessu. (Gripið fram í.) Og ég þreytist ekkert á því að hamra á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að þessi — nú geta menn haft allar skoðanir á þessu blessaða Evrópusambandi, hvort við eigum að vera inni eða úti, en ég bið menn, hvort sem þeir vilja fara í Evrópusambandið eða ekki, að hugsa þetta út frá hagsmunum Íslendinga. Þegar við þurfum að gæta hagsmuna Íslendinga, sama hvort menn vilja fara í Evrópusambandið eða ekki, eiga menn að gera það. Við þurfum að gera það hér. Við vitum alveg hvað (Forseti hringir.) EES-samningurinn felur í sér og vitum alveg (Forseti hringir.) hver sú staða er. (Forseti hringir.) Reynum alla vega, virðulegi forseti, reynum.