139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að vera í viðskiptanefnd síðustu tvö árin. Það kom t.d. fram á fundi með efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir rúmri viku að endurreisn bankakerfisins væri eiginlega bara á hugmyndastiginu enn þá, menn vita ekkert hvert þeir ætla að fara með þetta. Ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram í pólitík og til þings á Íslandi eftir hrunið var sú að mig langaði að taka þátt í uppbyggingu. Ég held að sú uppbygging þurfi að vera ansi róttæk, við þurfum að hugsa út fyrir rammann og við þurfum að fara róttækt í hlutina. Mér líður eins og við séum að endurreisa Ísland úr fúnum spýtum gamla Íslands. Kerfið stendur þarna einhvern veginn enn þá en innviðirnir eru svo fúnir að ekki má hreyfa við neinu, eins og sjá má af þessu dæmi sem hér hefur verið notað um fyrningarleiðina, vegna þess að þá fellur eitthvað annað. Það er ekki hægt að leiðrétta lán heimilanna vegna þess að þá fellur bankakerfið. Það er ekki hægt að koma á réttlæti í sjávarútvegi því að þá fellur bankakerfið. Er ekki spurningin að reyna að handstýra fallinu og byrja með hreint borð?