139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Menn hafa stundum haldið því fram að ekki væri fullsannað hvar best væri að hafa flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Það má vel vera að svo sé ekki. Hins vegar er hitt sannað að við höfum ekki peninga til að flytja flugvöllinn þannig að það er tómt mál um að tala. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Kristjáni Möller að spurningin er annaðhvort um Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll. Ég er sjálfur hlynntur Reykjavíkurflugvelli, m.a. af því að ég tel mikilvægt að stuðla að jafnvægi í flutningum í lofti, á landi og á sjó. Þetta hlutfall, þetta vægi, hefur raskast. Þannig hefur dregið allt of mikið úr sjóflutningum, allt of mikil umferð hefur færst yfir á vegina og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að við erum að þrengja að innanlandsfluginu með niðurskurði og álögum vegna efnahagskreppunnar, vegna þess að það eru ekki til fjármunir til ráðstöfunar. Þá er þeim mun meiri ástæða til að búa eins vel að fluginu og við mögulega getum.

Mér þótti undarlegt að heyra þetta tal um kjördæmapot. Ég bý sjálfur í um 500 metra fjarlægð frá flugvellinum í Reykjavík og kann því sambýli ágætlega. Ég er svo sem tilbúinn að hlusta á þá sem kvarta yfir hávaðanum, jafnvel í litlu rellunum. Mér finnst alltaf yndislegur vorboði þegar ég heyri suðið í litlu æfingaflugvélunum yfir Reykjavíkurflugvelli þó að ég sýni því að sjálfsögðu skilning þegar yfirvöld í Reykjavík vilja stuðla að því að æfingaflugið verði flutt. Það er ekki vegna þess að mig langi til þess, sem bý í nábýli við flugvöllinn.

Það var hlegið hér í salnum þegar talað var um tómt húsnæði sem væri búið að standa þannig í langan tíma. Menn skulu ekki hlæja að því. Það er ástæðan fyrir því að Íbúðalánasjóður stendur illa. Stóru verktakarnir (Forseti hringir.) tóku mikla fjármuni að láni til að reisa blokkir sem nú standa auðar. Menn skulu því ekki hlæja. Það er alveg rétt sem hv. (Forseti hringir.) þm. Árni Johnsen sagði í frammíkalli fyrr í dag, að ein ástæðan fyrir því að menn vildu ráðast í þennan flutning (Forseti hringir.) væri ákafinn í að komast í byggingarlandið. Það var nefnilega líka pínulítil brasklykt af þessu öllu saman. Það skulu þeir menn (Forseti hringir.) hafa í huga sem tala um kjördæmapot. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: … að flytja flugvöllinn.)