139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

rannsókn á stríðsrekstri í Líbíu.

[10:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar áskoranir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þingið allt eigi að beita sér meira í utanríkismálum landsins.

Það tiltekna mál sem hv. þingmaður vísað til, og fjallað var um í tímaritinu Rolling Stone, þekki ég. Það er eina málið sem ég þekki sem nýlega hefur komið upp en á því máli hefur verið tekið mjög fast. Bandarísk stjórnvöld hafa réttað yfir þeim ákveðna manni. Hann hefur upplýst um þrjá aðra sem hafa tekið þátt í því og það er frá honum komið, að það sem hann kallar dauðasveitir hafi gert sér að leik að drepa saklausa borgara og stilla sér upp og láta taka „trophy“-myndir sem svo eru kallaðar, með leyfi forseta. Það er búið að dæma þann hermann í 28 ára fangelsi þannig að það hefur verið tekið á því máli.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að Ísland á hvarvetna að stíga fram og fordæma brot á alþjóðlegum lögum og reglum og fordæma hryðjuverk og stríðsglæpi. (Forseti hringir.) Það gerum við reglulega. (BirgJ: Gætum gert meira.)