139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans með þessu máli. Mig langar til að taka það fram að ég tel að hv. viðskiptanefnd geti í sjálfu sér — og það er vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Eyglóar Harðardóttur — fjallað um þetta frumvarp eitt og sér í ljósi þeirra aðstæðna sem kalla á framlagningu þess án þess að þurfa að draga það mjög lengi. Ég tel að með tilliti til þess að við höfum nefndadaga í byrjun næstu viku, og viðskiptanefnd hefur þá mjög góðan tíma til að fjalla um þetta mál og önnur sem fyrir liggja, ætti að vera hægt að ljúka umfjöllun fyrir 2. umr. í viðskiptanefnd á nefndadögum, ég vona það svo sannarlega.

Þetta þýðir þó ekki að ég telji ekki nauðsynlegt að taka til endurskoðunar fleiri ákvæði sem er að finna í lögum um slit fjármálafyrirtækja. Ég hef sjálf lagt hér fram, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, frumvarp til laga um breytingu á lögum um slit fjármálafyrirtækja í því skyni að setja sólarlagsákvæði um störf skilanefnda, þ.e. að innan tiltekins tíma, nánar tiltekið 1. september nk., falli öll verkefni skilanefnda til slitastjórna sem þá fari með rekstur þrotabúa hinna gömlu banka rétt eins og áskilið er í lögunum um slit fjármálafyrirtækja hvað önnur fyrirtæki varðar en stóru bankana sem hrundu allir sem einn í byrjun október 2008; skilanefndirnar voru settar yfir þá á einni nóttu, nánast yfir þrjá banka. Ef þetta frumvarp mitt, sem ég er hér að nefna, verður að lögum munu þessar skilanefndir hafa starfað í tæplega þrjú ár og er það áreiðanlega tífaldur sá tími í mánuðum talið sem menn töldu að væri nauðsynlegur.

Ég vil líka nefna að annað tækifæri gefst til þess, og þá hið þriðja, að fara inn í lög um slit fjármálafyrirtækja því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lýst því að hann muni leggja fyrir þingið frumvarp sem kveður á um breytt eftirlit, nýtt eftirlit með störfum skilanefnda ásamt með ýmsum öðrum lagfæringum sem ráðuneytið og hæstv. ráðherra telur að þurfi að gera á þeim lögum.

Erindi mitt í þennan ræðustól var því að segja að ég er sammála hv. þm. Eygló Harðardóttur um það að nauðsynlegt er að hv. viðskiptanefnd fari vel og vandlega yfir lögin um slit fjármálafyrirtækja og geri á þeim nauðsynlegar endurbætur, einkum hvað varðar störf skilanefnda. Það tækifæri fáum við sjálfkrafa á næstu vikum og það á ekki að þurfa að tefja okkur í því að ljúka því máli sem hér er á dagskrá. Og, eins og ég segi, heiti ég liðsinni mínu til að hægt verði að gera það, helst á nefndadögunum sem byrja á mánudaginn kemur.