139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir varnaðarorð hv. þingmanns um kostnað annars vegar og ábata hins vegar af innleiðingu þessarar tilskipunar. Þó að ég hafi við þessa 3. umr. einhent mér í að ræða málfar og málvísindi sem er mikið áhugasvið þingsins nú um stundir ítreka ég að ég styð þetta frumvarp heils hugar og tel þær breytingar sem hér verið að gera á 10. gr. þess algerlega nauðsynlegar. Það sem mér þótti kannski ekki skemmtilegt eða til mikillar fyrirmyndar er að í kringum þessi vatnamál virtist vera risinn ansi mikill stofnanarígur, hv. umhverfisnefnd var allt í einu komin í þau spor að sitja og horfa á fjóra eða fimm forstjóra ríkisstofnana þrátta sín í milli um hver ætti hvað og hvað væri hvurs. Ég tek því undir það sem hv. þingmaður sagði, ég held að það sé nauðsynlegt að breyta þessu eins og nefndin er einhuga um og er ánægð með að þeir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skuli vera okkur samferða í því. Það hafði greint svolítið þarna á milli.

Fyrst ég er komin í pontuna langar mig að spyrja hv. þingmann um tillögu mína um orðið „vatnsheild“, hvort hann sé mér ekki sammála um að það sé tímabært að taka það inn í frumvarpið sem hér liggur fyrir.