139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

framhald ESB-umsóknarferlis.

[15:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hv. þingmanni og Framsóknarflokknum til hamingju með glæsilegt flokksþing um helgina og glæsilegt endurkjör forustu flokksins. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum var það annað sem gladdi mig meira. Það gladdi mig ósegjanlega varðandi Evrópumálið að Framsóknarflokkurinn hafnaði því alveg skýrt og skorinort að draga ætti umsóknina til baka. (Gripið fram í.) Sömuleiðis kemur það alveg skýrt fram í ályktun (Gripið fram í.) Framsóknarflokksins, án þess að ég sé endilega besti sérfræðingurinn til að túlka þann ágæta flokk, (Gripið fram í.) að það komi ekki til mála að ganga í Evrópusambandið nema þjóðin fái að greiða um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er alveg hjartanlega sammála Framsóknarflokknum um þetta (Gripið fram í.) eins og reyndar svo margt annað. Ég tel líka að með því að taka þann pól í hæðina hafi flokkurinn hjálpað formanni sínum til að komast undan því sjálfskipaða hlutverki sem hann lýsti í setningarræðu sinni, að flokkurinn hefði til þessa verið pólitískt uppfyllingarefni. Ég vona að það breytist eftir þetta þing þó að auðvitað sé dálítið skrýtið að átta sig á stefnunni. Hver er hún í Evrópusambandinu? Jú, hún er þessi: Það á ekki að samþykkja tillögu um að halda áfram með umsóknina en það á ekki að draga hana til baka. Hins vegar er eitt skýrt: Það á að láta þjóðina ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er bara sammála því. (Gripið fram í.)

Ég held frekar að þetta hjálpi til varðandi aðildarumsóknina. Hins vegar þarf hv. þingmaður ekki að vera hrædd um neitt. Hún er á móti aðild og hún er búin að segja hér í ræðustól að það sé alveg ljóst að umsóknin verði aldrei samþykkt. Gott og vel, látum það koma fram með sama hætti og vilja fólksins varðandi Icesave-samninginn, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það er ég sammála hinum gamla, gróna Framsóknarflokki sem er loksins horfinn aftur til upphafs síns og er opinn í báða enda. (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.]