139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjölmiðlalaga sem við greiðum nú atkvæði um eru settar fram lagaumbætur auk þess sem starfsumhverfi fjölmiðla og vernd neytenda er bætt, m.a. með sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum, gegnsæi eignarhalds ásamt eðlilegu eftirliti með fjölmiðlum. Ákvæði er varðar neytendavernd barna og unglinga er til mikilla bóta og er tekið fram að ekki skuli hvetja börn til neyslu á óhollum matvælum og drykkjarvörum. Með auglýsingabanni í dagskrá sem ætluð er börnum yngri en 12 ára er einnig bætt neytendavernd barna og sú skylda okkar uppfyllt að tryggja börnum vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Því fagna ég sérstaklega.