139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

raforkuöryggi á Vestfjörðum.

537. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og jákvæðar viðtökur við því sem ég lagði fram í sambandi við þær hugmyndir og tillögur sem liggja fyrir frá nefndinni og við höfum verið að ræða.

Þetta er tvenns konar. Annars vegar eru úrræði sem hægt er að grípa til tiltölulega hratt, eins og t.d. uppbygging varaaflstöðvar, og hins vegar úrræði til lengri tíma. Bent hefur verið á að kostnaðurinn við uppbyggingu 10 megavatta varaaflstöðvar á Ísafirði gæti numið um 300 millj. kr. Samanborið við 400 millj. kr. samfélagskostnað sýnist manni að varla geti verið hægt að finna arðbærara verkefni, a.m.k. ekki á þessum slóðum. Ég hef líka mínar efasemdir um að 400 millj. kr. séu nóg til að mæla samfélagslegan kostnað því að hann er margs konar. Hann birtist í núverandi atvinnustarfsemi með ýmsum hætti, eins og hæstv. ráðherra rakti, sem gerir það að verkum að ýmislegt í starfseminni getur ekki þróast áfram. Hátæknifyrirtækin sem menn hafa sett á laggirnar fyrir vestan eru gott dæmi um það.

Síðan hefur verið mikil viðleitni til að laða vestur margs konar nútímalega starfsemi sem krefst m.a. mikils raforkuöryggis. Allar hugmyndir um slíkt hafa dottið niður dauðar eða margar þeirra vegna þess að menn hafa ekki getað treyst á raforkuafhendingaröryggið og því er það gríðarlega mikilvægt.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er ekki öruggt að fyrstu aðgerðunum til að bregðast við verði hrint mjög hratt í framkvæmd til að koma til móts við megintillögu nefndarinnar sem lýtur að þeim úrræðum sem hægt er að grípa til strax? Síðan er annað út af fyrir sig meiri framtíðarmúsík, hringtengingin og það allt saman sem hæstv. ráðherra sagði að væri búið að koma í tiltekinn farveg. Ég ítreka í því sambandi að það er ekki nóg að skipa nefnd ofan á nefnd. Nefnd verður líka að hafa umboð til þess að leggja eitthvað til sem við getum vænst að byggt verði á.