139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um 33. gr., réttinn til þátttöku í sveitarstjórnarstörfum. Þar stendur að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum af þeirri ástæðu að hann hafði boðið sig fram til sveitarstjórnar eða verið kjörinn til sveitarstjórnar. Nú hefur það hins vegar tíðkast og margir þekkja það að starfsmenn hafa farið til atvinnurekanda síns, hvort sem er hjá ríki eða einkaaðilum, og spurt í upphafi hvort og hvernig atvinnurekandinn tæki því ef viðkomandi aðili færi í framboð fyrir tiltekið stjórnmálaafl í viðkomandi sveitarfélagi. Og svarið hefur verið: Þá velur þú á milli þessarar vinnu og annarrar. 33. gr. nær ekki yfir þetta. Sé það stefna fyrirtækja að þetta sé ekki heimilt hvernig telur þá hæstv. ráðherra að 33. gr. muni virka?