139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

samvinna milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

480. mál
[23:40]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að koma á samvinnu við Færeyjar og Grænland um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum og skora á hana að vinna með löndunum tveimur að undirbúningi viðræðna og samstarfs við aðrar fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson. Tillagan er grundvölluð á ályktun Vestnorræna ráðsins frá ársfundi þess í ágúst síðastliðnum í Tasiilaq á Grænlandi.

Öll vestnorrænu ríkin, Færeyjar, Grænland og Ísland, leitast við að tryggja að allar veiðar í lögsögu ríkjanna séu sjálfbærar. Ríkin þekkja öll bæði af eigin reynslu og annarra hvaða afleiðingar ofveiði getur haft í för með sér. Af þessum ástæðum taka löndin meginregluna um sjálfbærni alvarlega. Löndin gera sér grein fyrir mikilvægi þess að skýrar og afgerandi reglur gildi um veiði úr fiskstofnum ríkjanna. Eitt af þeim vandamálum sem blasa við þegar staða fiskstofna hvers lands fyrir sig er metin er að tilhneiging er til ofveiði úr þeim stofnum sem eru sameiginlegir með einu eða fleiri löndum.

Í júní á síðasta ári hélt Vestnorræna ráðið þemaráðstefnu um fiskveiðistjórnarkerfi. Meðal mikilvægustu niðurstaðna ráðstefnunnar var að til að tryggja sjálfbærar veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum væri nauðsynlegt að þau lönd þar sem fiskstofnarnir halda sig vinni saman um stjórn á veiðum úr þessum stofnum og ákveði í sameiningu hversu mikið megi veiða úr þeim árlega. Alþingi beini því þess vegna til vestnorrænu sjávarútvegsráðherranna, samkvæmt þessari tillögu, að koma á formlegu samstarfi um stjórn á veiðum úr sameiginlegum fiskstofnum. Skorað er á ráðherrana að semja sameiginlegar reglur um samstarf um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum og að þeir vinni að sameiginlegum undirbúningi fyrir viðræður og samvinnu við þriðju ríki um stjórn á veiðum úr sameiginlegum fiskstofnum. Með sameiginlegri afstöðu í viðræðum við þriðju ríki standa löndin þrjú sterkar að vígi heldur en ef hvert land stendur eitt og út af fyrir sig.

Að svo mæltu, frú forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.