139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem mér hefur þótt athyglisvert við þá umræðu sem farið hefur fram hér í dag er það að stjórnarandstaðan, sem öll virðist ætla að greiða atkvæði með vantrausti sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram á ríkisstjórnina, hefur ekki sett fram eina einustu tillögu um það hvernig hún mundi taka á málum ef hún væri við stjórn landsins. Það vantar alltaf allar tillögur frá stjórnarandstöðunni en tillögur stjórnarliða hafa allar gengið út á það að sýna og sanna að hún hefur tillögur við þeim vanda sem við er að glíma.

Ég sagði það í upphafi máls míns að við þyrftum að efla samtakamátt innan og utan þings til að takast á við þá erfiðleika sem fram undan eru. Tillaga sjálfstæðismanna sýnir ekki vilja til þess að þjóðin leggi saman, þing og þjóð, til að taka á þeim vanda sem við er að glíma. Ég fór rækilega yfir það hvað það er sem við viljum gera. Ég fór rækilega yfir það að ég tel að við eigum alla möguleika á því að auka hagvöxt og atvinnuuppbyggingu með þeim áætlunum sem liggja fyrir og við höfum lagt fram með aðilum vinnumarkaðarins. Sem betur fer hefur það komið fram í sjónvarpinu að þeir eru væntanlega að ná saman um þriggja ára kjarasamning og það er ekki síst fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar.

Við erum að leggja fram atvinnuáætlun sem sýnir að við getum náð 4–5% hagvexti á næstu þremur árum. Við getum lækkað atvinnuleysið um helming. En hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar? Það hefur ekki komið eitt orð fram um þær í umræðunni í dag. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Og í mínum huga hefur þessi umræða sýnt fram á það og sannað að tilgangur vantraustsins var að breiða yfir ágreining í Sjálfstæðisflokknum með því að beina sjónum manna að ríkisstjórninni.

Umræðurnar hafa einnig sýnt og sannað að stjórnarandstaðan er enginn valkostur við þá stefnuföstu ríkisstjórn sem nú er við völd, ríkisstjórn sem er að skila góðum árangri við erfiðar aðstæður eins og við höfum tíundað og farið yfir á þessum degi. Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn er að kalla eftir pólitískri upplausn og óvissu í samfélaginu og slær á sáttarhönd ríkisstjórnarinnar við úrlausn Icesave-málsins í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þá keppast öll ábyrg öfl í samfélaginu við að skapa samstöðu, eyða óvissu og sameinast í kröftugri efnahagslegri sókn, meðal annars með aðilum vinnumarkaðarins. Þetta hefur skýrt komið fram á þessum degi.

Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn logar stafnanna á milli undirbýr ríkisstjórnin fjárfestingaráætlanir, efnahagsáætlanir og kröftugt framkvæmdaátak í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og það er það sem skiptir máli í leiðinni áfram í atvinnuuppbyggingunni sem við höfum boðað í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag.

Það eina sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í umræðunni var að hægt væri að skila þessum 24 milljörðum, sem annars hefðu farið í að greiða Icesave-reikninginn ef já-leiðin hefði verið ofan á, í atvinnuuppbygginguna. Auðvitað er það rangt vegna þess að sú fjárhæð fer beint í að greiða Hollendingum og Bretum inn á innstæðutryggingarsjóðinn. Það er staðan í þessu máli. En umræðan í dag sýndi svart á hvítu að ríkisstjórnin er á réttri leið. Stefnufesta hennar og verkgleði mun tryggja að heimili landsins munu á næstu missirum finna jafnt og þétt að hagur okkar er að batna og framtíðin er björt. Það sem vantar á er að stjórn og stjórnarandstaða taki höndum saman í þeim erfiðleikum sem fram undan eru og því hefur stjórnarandstaðan hafnað í dag.