139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[11:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um leið og ég lýsi yfir stuðningi við frumvarpið eins og það kemur frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vil ég lýsa samúð með þeim sjónarmiðum sem búa að baki tillögu hv. þm. Helga Hjörvars. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að jafnróttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu og felast í tillögum hans þurfi annan aðdraganda og meiri undirbúning en hér liggur fyrir og get því ekki stutt tillögu hans. En ég fagna því að úr þessari átt, frá hv. þingmanni, komi tillaga sem ber jafnmikinn keim af frjálsu markaðskerfi og frjálshyggju og hér er um að ræða.