139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[11:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið unnið mjög vel í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við höfum farið yfir málið og komist að nær samhliða niðurstöðu. Þingmenn voru fjarverandi en að öðru leyti var samstaða um málið.

Það getur vel farið svo að málið komi nú inn í nefndina milli 2. og 3. umr. og þá er það auðvitað til afgreiðslu frá nefndinni, málið er orðið það vel unnið. Ég treysti því að þá verði virt sú niðurstaða sem kann að fást hjá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um afgreiðslu þessa máls.

Varðandi þessa breytingartillögu að öðru leyti er það alveg ljóst að hér er verið að hreyfa við miklu stærra máli og raunar óskyldu því sem frumvarpið gengur út á. Þess vegna er fráleitt að afgreiða það. Það er miklu eðlilegra, eins og fram kom í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, að þetta mál sé lagt fram sem frumvarp með rökstuðningi og fái þá eðlilega þinglega meðhöndlun en að því sé ekki laumað hér inn við 2. umr. með þessum hætti.