139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[11:40]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli sérstaklega vegna þess að ég man mjög vel eftir því hvernig það hóf sinn gang í þinginu. Frá fjármálaráðuneytinu kom bréf sem okkur þingmönnum öllum barst frá föður. Titill þess bréfs situr enn þá í mér: Sonur minn með hvítblæði. Það er á slíkum augnablikum sem við hljótum öll að vera sammála um að eitthvað hafi farið úrskeiðis í hugsuninni, að á svo viðkvæmum tíma í lífsbaráttu einstaklinga fari ríkið að seilast í tryggingabæturnar. Ég held því að það sé afar jákvætt að þingið bregðist við með þessum hætti. Það mætti verða meira um það að þingið tæki upp erindi eins og hér er gert frá einstaklingum og breytti beinlínis lögum. Þessu ber að fagna.