139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[12:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við því er frekar einfalt. Ríkisstyrkjareglur EES-samningsins girða algerlega fyrir það að opinberir aðilar geti nýtt sér þá aðstöðu að þeir hafi meira fjármagn milli handanna og að þeir fjármagni þannig samkeppnisrekstur með öðrum hætti en einkaaðilar í sama rekstri mundu gera. Ríkisstyrkjareglurnar gilda alfarið um það og girða alfarið fyrir það.

Einu undantekningar frá því eru ef um er að ræða fyrirtæki sem gegnir tilteknum verkefnum fyrir hið opinbera sem réttlæta forréttindi viðkomandi fyrirtækis að einhverju leyti, en þá á að vera hægt að endurmeta kostnaðinn sem viðkomandi fyrirtæki hefur af því að veita viðkomandi þjónustu. Endurgjaldið verður þá að vera í samræmi við þann kostnað sem viðkomandi fyrirtæki hefur af því.