139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum, og lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ákvæðum vatnalaga og laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem snúa að heimildum opinberra aðila til að veita tímabundinn afnotarétt að vatnsafls- og jarðhitaréttindum. Lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði að veita tímabundinn afnotarétt að vatnsaflsréttindum til allt að 40 ára og að jarðhitaréttindum til allt að 30 ára frá því að nýting á auðlindinni hefst í stað 65 ára í senn eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Um er að ræða þekkta klásúlu í lögum eða heimild sem veruleg hitaumræða hefur spunnist um í samfélaginu. Því tel ég rétt að leggja fram frumvarp með þessum breytingum þannig að jarðhitaréttindin verði til 30 ára og vatnsréttindin til 40 í stað 65 ára í senn eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Ástæða þess að lagður er til mismunandi hámarkstími afnotaréttar fyrir nýtingu vatnsafls annars vegar og jarðvarma hins vegar er að mun meiri óvissa og minni þekking er á nýtingu jarðvarma og því eru sterkari rök fyrir styttri leigutíma á slíkri auðlind. Að auki verð ég að nefna, virðulegi forseti, að þegar löggjöf ríkja í kringum okkur, sem nýta sömu auðlindir, er skoðuð má segja að þessi sé í samræmi við það sem gerist annars staðar að því leyti að 30 ár eru mjög algengur leigutími hjá ríkjum sem leigja út jarðhitaréttindi en 40 ár fyrir vatnsréttindi.

Virðulegi forseti. Samkvæmt núgildandi lögum getur handhafi tímabundins afnotaréttar að vissum skilyrðum uppfylltum fengið framlengingu á nýtingarrétti sínum til allt að 65 ára í senn. Í frumvarpinu er lagt til að þessu ákvæði verði breytt þannig að afnotahafi auðlindar hafi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, forgangsrétt til að endursemja einu sinni um áframhaldandi afnot auðlindarinnar til allt að 20 ára frá því að hinn upphaflegi samningur rennur út, enda standi ekki til af hálfu eiganda auðlindarinnar að gera breytingar á nýtingu hennar. Hafa ber í huga að með þessu ákvæði er ekki átt við óbreytta framlengingu á hinum upphaflega samningi heldur er gert ráð fyrir því að eiganda auðlindarinnar sé heimilt að semja að nýju um nýtingu hennar og endurgjald fyrir þá nýtingu.

Í frumvarpinu eru sett ákveðin skilyrði fyrir framlengingu sem miða m.a. að því að tryggja góða umgengni við auðlindina en markmið ákvæðis um forgangsrétt afnotahafa er að hvetja þann sem nýtir auðlindina til að gera það á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt. Því eru skilyrði slíkrar framlengingar þau að viðkomandi afnotahafi hafi að öllu leyti farið eftir lögum og reglum sem um starfsemina gilda og framfylgt öllum þeim skilyrðum sem kunna að snúa að viðkomandi leyfi svo sem um ábyrga nýtingu auðlindarinnar og umgengni við náttúru á því svæði sem um ræðir.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að í reglugerð sé heimilt að kveða á um hvernig standa skuli að úthlutun hinna tímabundnu afnotaréttinda þegar um er að ræða réttindi undir yfirráðum ríkisins. Samkvæmt núgildandi vatnalögum og auðlindalögum skal forsætisráðherra semja um endurgjald eða leigu fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins.

Í ljósi þeirra hagsmuna sem um ræðir er mikilvægt að samningar um tímabundinn afnotarétt að vatnsafls- og jarðhitaréttindum séu sem best úr garði gerðir. Með hliðsjón af því er með frumvarpinu lagt til að í slíkum samningum verði m.a. kveðið á um skyldur afnotahafa, skilyrði nýtingarleyfis, umgengni við náttúru, ábyrga nýtingu og hvernig fara skuli með mannvirki í lok samnings og hvernig frágangi auðlindarinnar skuli háttað við lok samningstíma.

Tillögur frumvarpsins byggja að hluta á niðurstöðum nefndar forsætisráðherra um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Einnig taka tillögur frumvarpsins mið af vinnu stýrihóps um heildstæða orkustefnu sem hefur verið starfandi frá því í ágúst 2009. Við vinnu að framangreindum skýrslum var haft mjög víðtækt samráð við hagsmunaaðila og stjórnvöld auk þess sem aðstæður og sambærileg löggjöf erlendis hefur verið skoðuð.

Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs en það kann að hafa áhrif á þá aðila sem óska í framtíðinni eftir þessum afnotarétti. Rétt er að taka fram að þessar breytingar eru að sjálfsögðu ekki afturvirkar heldur eiga þær að gilda um nýja samninga.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að það er mjög mikilvægt að þetta þing fái málið til umfjöllunar vegna þess að það skiptir máli að við náum sátt um almannaeign á auðlindum landsins. Það skiptir líka máli að við náum sátt um ábyrga nýtingu auðlinda. Markmiðin með þessu frumvarpi eru akkúrat þau, þ.e. að reyna að ná sátt um nýtinguna og tryggja að almenningur sem á samkvæmt lögum að eiga auðlindirnar — eða öllu heldur er bannað samkvæmt lögum að framselja auðlindir til einkaaðila úr eigu hins opinbera. Virðulegi forseti. Með þessu erum við enn að styrkja eignarhald almennings á auðlindum okkar. Ég tel að þetta mál geti orðið okkur til heilla til lengri tíma litið vegna þess að um það hefur staðið nokkur styr lengi.