139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um ríki og almenning og mig langar að spyrja hann um þriðja hugtakið sem er þjóð. Mikið hefur verið talað um þjóðareign o.s.frv. og vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geri ekki mun á ríki og þjóð og hver sá munur sé.

Mér finnst það skína alls staðar í gegn að menn treysta ekki stjórnsýslunni og ráðamönnum þjóðarinnar, vegna þess að 65 ár eru hámark — menn hefðu að sjálfsögðu getað samið um 20 ár eða 10 ár, 15 ár eða hvað sem er, það þurfti ekki að fara í hámarkið. Menn tala alltaf eins og ráðamenn þjóðarinnar semji af sér, að þeir geri slæma samninga. Hvernig má það vera að þessi hugsun er svo rík hjá mönnum að þeir leggja meira að segja fram frumvarp þar sem farið er út í mjög nákvæma útlistun á því hvað megi gera og hvað megi ekki gera? Hér stendur t.d. að taka eigi tillit til þess ef auðlindin er minni en talið hafi verið. Nema hvað? Þetta mundu menn að sjálfsögðu setja inn í samning, venjulega skynsamt fólk báðum megin borðsins.

Mér finnst frumvarpið hreint og klárt vantraust á stjórnvöld og spurning hvort það er að gefnu tilefni eða hvort slíkt vantraust gagnvart stjórnvöldum sé komið til að vera. (Gripið fram í.)