139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. formann félags- og tryggingamálanefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, um leiðsögu- og hjálparhunda þar sem sagt er að þeim aðilum sem þurfi á slíku að halda sé heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkum þessara laga, sem ég get reyndar sjálf fúslega fallist á.

Nú getur háttað þannig til að í stigagangi, þar sem ekki er sérinngangur að hverri íbúð, búi einstaklingur sem hefur hastarlegt ofnæmi fyrir hundum, hvort heldur þeir eru leiðsöguhundar eða blindrahundar eða annars konar hundar. Hvernig telur löggjafinn að bregðast eigi við þannig að ekki sé gengið á rétt þess einstaklings samhliða því að réttur þess sem þarf á hundi að halda, vegna þess að hann er blindur eða fatlaður að öðru leyti, sé virtur? Hvernig er hægt að búa þannig um hnútana af hálfu löggjafans að báðir aðilar standi jafnréttháir? Mun þá löggjafinn setja inn tilmæli eða eitthvað í þá veru? Eða hvernig hyggst löggjafinn í raun tryggja réttindi þeirra tveggja einstaklinga sem þar búa?

Ég vil taka það fram, frú forseti, að þetta geta verið öfgatilfelli, einstök tilfelli og sjaldgæf tilfelli, en þau geta engu að síður komið upp og þau þarf að skoða. Áður en löggjafinn ákveður að setja lög þess eðlis verður að velta því máli upp og skoða með hvaða hætti hægt yrði að bregðast við ef slíkt kæmi upp.