139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp er að ræða aðeins stöðuna í íslenskum stjórnmálum í dag eftir vantraustsumræðurnar í þinginu í fyrradag. Það getur auðvitað ekki gengið til lengdar, og það sannaðist eftir umræðurnar sem voru athyglisverðar og að mörgu leyti ekki uppbyggilegar, að öll mál verði að ágreiningi innan þings sem utan þegar við stöndum í þeim sporum sem íslensk þjóð er í um þessar mundir. Ég lít svo á að Alþingi Íslendinga hafi sett niður og þar er engum um að kenna nema þinginu sjálfu.

Ég vil minna á að fyrir einu ári kom út rannsóknarskýrsla sem setti alvarlega ofan í við íslenska stjórnmálaumræðu. Sú skýrsla var mikilvægur þáttur í pólitísku uppgjöri við hrunið, og fulltrúar allra flokka á Alþingi tóku undir meginniðurstöðu hennar. Þar var lögð áhersla á aukna fagmennsku við undirbúning löggjafar og bætta rökræðusiði á Alþingi. Nefndin lagði áherslu á að Alþingi bæri að rækja umræðuhlutverk sitt og vera vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta og að alþingismönnum bæri að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum og afla sér þar með trausts þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.

Alþingi hefur veigamiklu hlutverki að gegna, ekki bara sem löggjafarvald, fjárveitingavald og eftirlitsaðili. Það hefur forustuhlutverki að gegna í opinberri umræðu og mig langar til að biðja þingheim, alla þingmenn, til að líta nú í eigin barm og svara þeirri samviskuspurningu hver fyrir sig hvort Alþingi Íslendinga hafi yfirleitt (Forseti hringir.) rækt þetta hlutverk sitt upp á síðkastið.