139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[11:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er því miður mjög dæmigert fyrir hæstv. ríkisstjórn. Stóru málin, eignarhaldið, staða Ríkisútvarpsins eru ekki með í fjölmiðlalögum.

Síðan ætla menn að setja … (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Mörður Árnason er mjög ósáttur við málið þannig að ég efast ekki um að hann geri eins og við og greiði atkvæði gegn frumvarpinu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa hv. ræðumanni hljóð.)

Hv. þm. Mörður Árnason hagar sér svipað og þegar ég ræddi gömlu fjölmiðlalögin, en það er annað mál.

Síðan á að setja nýja eftirlitsstofnun, fjölmiðlanefnd, af því að Fjölmiðlastofa var óvinsæl. Það veit enginn nákvæmlega hvað hún á að gera en það er full ástæða til að hafa áhyggjur. Ég vek athygli á því að um leið leggja menn niður útvarpsréttarnefnd sem virkaði vel og var ódýr í rekstri. (Gripið fram í.) Það er mjög í anda ríkisstjórnarinnar að losa sig við hana og setja á eitthvað annað og (Forseti hringir.) verra í staðinn sem kostar miklu meira.