139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög.

Með frumvarpinu er stefnt að samræmi við lög nr. 13/2010, um breyting á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög.

Með þessu frumvarpi er mælt fyrir um tvenns konar breytingar á áðurnefndum lögum. Annars vegar er lagt til að tryggt verði að formaður stjórnar í umræddum félögum taki einungis að sér verkefni sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, með öðrum orðum að viðkomandi sé ekki í reynd starfandi stjórnarformaður. Rökin eru m.a. sótt í álit nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi en þar lagði meiri hluti nefndarinnar til sams konar tillögu með þeim rökum að óæskilegt væri að stjórnarformenn væru í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags, enda væri það eitt af helstu hlutverkum stjórnarformanna að stýra eftirliti stjórnar með rekstri félagsins. Starfandi stjórnarformaður væri því settur í þá stöðu að vera í reynd beggja vegna borðsins, þ.e. að eiga að hafa eftirlit með framkvæmdastjórn sem hann væri í reynd sjálfur hluti af. Tilgangur þessa ákvæðis er því að minnka líkur á hagsmunaárekstrum. Verði ákvæðið óbreytt að lögum mun stjórn félagsins þó geta falið stjórnarformanni afmörkuð verkefni fyrir stjórnina.

Hin megintillaga frumvarpsins lýtur að miklu þjóðþrifamáli, þ.e. að auka jafnrétti kynjanna í stjórnun félaga og fyrirtækja. Lagt er til með þessu frumvarpi að í lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði kveðið á um jöfn kynjahlutföll í stjórn fyrirtækisins en hún er skipuð sex einstaklingum. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að þar sem hér er um jafna tölu stjórnarmanna að ræða fari best á því að kveða á um jafnan hlut kynjanna í stjórn. Hins vegar verði kveðið á um að hlutfall hvors kyns verði ekki lægra en 40% í þeim félögum þar sem fjöldi stjórnarmanna er oddatala, svo sem í Landsvirkjun þar sem stjórnarmenn eru fimm talsins.

Meiri hlutinn leggur til minni háttar breytingar á 6. gr. frumvarpsins sem lúta að dagsetningum einstakra ákvæða greinarinnar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum.

Undir álitið rita Lilja Mósesdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, og sá sem hér stendur.