139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi sem er á þskj. 75, 71. mál. Fyrsti flutningsmaður er Kristján Þór Júlíusson og nokkrir fleiri.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Guðna Jóhannesson orkumálastjóra og Þórarin Svein Arnarson frá Orkustofnun.

Þá bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Framsýn, Hafrannsóknastofnun, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurþingi, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Vegagerðinni.

Drekasvæðið hefur verið í brennidepli hvað olíuvinnslu varðar síðastliðin missiri. Fyrsta útboð sérleyfa á svæðinu fór fram í byrjun árs 2009 og sóttu tveir umsækjendur um rannsóknar- og vinnsluleyfi en drógu síðar umsóknir sínar til baka. Undirbúningur annars útboðs sérleyfa á svæðinu hefur staðið í nokkurn tíma og er það fyrirséð á tímabilinu frá ágúst til desember á þessu ári. Við ræddum meðal annars frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra í gær sem snýr að þessu máli á Drekasvæðinu þar sem verið er að undirbúa, eins og hér er sagt, næsta útboð sem mun verða síðari hluta þessa árs. Þar hefur verið unnið mikið og gott verk, meðal annars í samvinnu við Norðmenn sem líka eiga hagsmuna að gæta á Drekasvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá Orkustofnun er næsta skref í olíu- og gasrannsóknum á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, þ.e. að kanna hvort móðurberg finnist þar og hvort það sé nægilega þroskað. Hefur Orkustofnun lagt til að farið verði í þær rannsóknir sem lýst er í nýlegri skýrslu Bjarna Richters og Karls Gunnarssonar frá því í febrúar 2010. Hefur Orkustofnun þannig lagt til að safnað verði 15–30 setkjörnum á að minnsta kosti fimm völdum stöðum. Í framangreindri skýrslu er lýst á hvaða svæðum er lagt til að taka sýni. Áður en að sýnatöku kemur mun þurfa töluverðan undirbúning. Að mati Orkustofnunar er áætlað að kostnaður við næsta áfanga í rannsóknum og sýnatöku á viðkomandi svæði, miðað við framangreint, sé um 13 millj. kr. Er sú fjárhæð ekki innan ramma fjárlagaliða Orkustofnunar fyrir árið 2011.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að kanna hvort olíuvæn setlög eða gas sé að finna á landgrunni Íslands. Miklir hagsmunir eru í húfi og sé nýtanlegar auðlindir að finna á landgrunninu getur það gjörbreytt efnahag þjóðarinnar og stuðlað að aukinni atvinnusköpun sem og betri lífsgæðum. Er þetta verkefni ekki síst mikilvægt í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú ríkir.

Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að vísa því til ríkisstjórnarinnar að fjármunir verði tryggðir til að unnt verði að framkvæma lágmarks olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað orðanna „fela iðnaðarráðherra að tryggja“ í fyrri málslið tillögugreinarinnar komi: tryggðir verði fjármunir til.

Undir þetta nefndarálit rita átta af níu þingmönnum iðnaðarnefndar auk þess sem hér stendur: Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jón Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Þráinn Bertelsson, með fyrirvara, og Magnús Orri Schram, með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum hér um er mál sem full ástæða er til að kanna mjög gaumgæfilega. Eins og kemur fram í áliti nefndarinnar er talið að þær rannsóknir sem þarna þurfi að gera muni kosta um 13 millj. kr. og vísindamenn segja að þær muni gefa mjög miklar upplýsingar um hvort þarna sé að finna gas eða olíu. Við erum að tala um svokallað Tjörnesbelti. Það mál er ekki nýtt af nálinni vegna þess að á 121. löggjafarþingi lagði Guðmundur Hallvarðsson, þáverandi þingmaður, ásamt fimm öðrum þingmönnum, fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að hafnar yrðu rannsóknir á því hvort olíu eða gas væri að finna á landgrunni Íslands. Ályktunin tók nokkrum breytingum í meðförum iðnaðarnefndar og útkoman varð sú að skipa starfshóp með þátttöku vísindamanna sem skyldu meta hvort rétt væri að hefja markvissar rannsóknir á olíu og gasi á landgrunninu.

Það svæði sem við erum að tala um, svokallað Tjörnesbelti undan Norðurlandi, var á árunum 2000–2004 að nokkru kortlagt og rannsakað. Þetta belti nær um það bil 150 kílómetra frá Skaga í vestri til Öxarfjarðar í austur og frá ströndum Norðurlands um 50 kílómetra leið allt að Kolbeinseyjarhrygg en á þessu svæði fundust merki um bæði lífrænt gas og efni. Árin 2003 og 2004 var sérstök áhersla lögð á Skjálfanda. Vísindamenn hafa skrifað um þetta og telja þetta álitlegt og að þetta þurfi að skoða betur.

Ég nefndi áðan í nefndarálitinu og ræddi líka í gær annað frumvarp þar sem talað var um olíuleit á Drekasvæðinu og það sem á að gerast þar næst. Það er miklu dýrara svæði að fara inn á en engu að síður eigum við að sjálfsögðu að fara á það og eins og ég sagði í ræðu í gær eigum við að taka upp miklu meiri samvinnu við Norðmenn um rannsóknir og um sameiginlega hagsmuni þó svo við gætum að okkar hagsmunum hvað varðar arð og tekjur af fyrirhuguðu svæði þegar þær koma, ekki ef þær koma heldur þegar. Drekasvæðið er langt í burtu. Það er djúpt og þar eru meiri óveður. En þetta svæði, svona skammt frá ströndum landsins úti fyrir Norðurlandi, er miklu hagkvæmara og auðveldara í að fara, fyndum við þar olíu eða gas. Það eru til rannsóknir sem benda á gasuppstreymi í Flatey á Skjálfanda og niðurstöður þar hafa leitt í ljós að möguleiki sé á að olíu- og gaslendur sé þar að finna. Þetta gæti auðvitað verið mikil verðmætasköpun og ekki veitir af í kreppunni og því sem við þurfum að gera á komandi árum.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, virðulegi forseti, að við erum að tala langt fram í tímann, 5, 10 eða 15 ár, guð má vita það. En það sem hér er lagt til, með 13 millj. kr., er þannig að í raun og veru erum við að tala um smáaura miðað við þá miklu hagsmuni sem þarna geta verið. Þess vegna leggur iðnaðarnefnd þetta til og tekur undir þessa þingsályktunartillögu frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum og telur að full ástæða sé til að fara í þessa vinnu, hvetur ríkisstjórnina til að útvega þessar 13 millj. kr. til Orkustofnunar þannig að þetta megi gera.

Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að átta af níu nefndarmönnum iðnaðarnefndar skrifa upp á þetta nefndarálit og ég held að við getum sagt að um það sé jafnvíðtæk sátt og um ýmis fleiri mál sem við erum að vinna í iðnaðarnefnd á þessu þingi. Hér er sem sagt verið að klára þá þingsályktunartillögu sem líka var lögð fram í fyrra en náði ekki fram að ganga.