139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu verið tilbúin til þess og lagt allt það af mörkum sem hún hefur getað til að auðvelda aðilum vinnumarkaðarins að ná saman um kjarasamninga. Mikil vinna hefur staðið yfir í þeim efnum, í raun og veru allt frá því í janúar, og allmargar vikur eru síðan viðamikil yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar lá tilbúin í drögum og var kynnt aðilum vinnumarkaðarins á fundum í ráðherrabústaðnum og víðar. Sú yfirlýsing var nánast algerlega frágengin fyrir páska, í dymbilviku, og það vissu aðilar vinnumarkaðarins þegar þá slitnaði upp úr. Þegar hreyfing komst aftur á málin í síðustu viku gengum við endanlega frá þeirri yfirlýsingu og sendum hana ríkissáttasemjara sem hefur síðan haft hana undir höndum og heimild til að vinna með hana í samskiptum sínum við viðræðuaðila, enda er það svo að ég hef ekki heyrt síðustu daga kvartað undan því að viðbrögð ríkisstjórnarinnar væru það sem nú strandaði á.

Því miður hefur af mismunandi ástæðum og á mismunandi tímum slitnað upp úr þessu viðræðum og þær hafa svo hrokkið í gang aftur. Það sem hefur reynst erfiðast er krafa Samtaka atvinnulífsins eða LÍÚ um að tilteknar lausnir í sjávarútvegsmálum væru hafðar með í þessum kjaraviðræðum. Það hefur hvorki ríkisstjórnin né viðræðuaðilar launþega fallist á. Við höfum hins vegar sent með yfirlýsingunni bókun um aðkomu þessara aðila í málsmeðferðinni sem virðist a.m.k. að því leyti hafa verið fullnægjandi að Samtök atvinnulífsins tóku aftur upp þá afstöðu að nú vildu þau reyna að gera þriggja ára samning en spurning er hvort þolinmæði viðræðuaðila þeirra sé þrotin og hvaða stefnu málin taka úr þessu. Mikilvægt er auðvitað engu að síður að menn gefist ekki upp því að það að tryggja frið og stöðugleika á vinnumarkaði er afar mikilvægt.

Í yfirlýsingunni er farið yfir mjög mörg mál; ríkisfjármál, fyrirheit um (Forseti hringir.) hvernig kjarahækkanir verði teknar inn í bótakerfin, hvernig farið verði með skattleysismörk, fjárfestingar, menntamál, ferðaþjónustumál og margt, margt fleira sem þar er undir.