139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé reyndar alveg rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að það er Alþingi sem er að afgreiða lokafjárlögin núna. Það þýðir ekki fyrir menn að kalla aðra til ábyrgðar þegar búið er að samþykkja þau af hálfu Alþingis, það er algjörlega hárrétt. Þess vegna er svo mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hvað er að gerast. Það eru kannski fleiri sem taka þátt í umræðum um fjárlög en í umræðum um fjáraukalögin, um ríkisreikning, um lokafjárlög; taka nánast bara einn, tveir eða þrír þátt, salurinn tæmist. Hér erum við fjórir hv. þingmenn í salnum, fimm með hæstv. forseta, til að taka þátt í þessari umræðu á sama tíma og það er stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir að ná tökum á ríkisfjármálunum, því annars höldum við bara áfram að greiða vexti af lántökunum.

Ég minni á eitt: Þegar við erum að tala um að ná tökum á ríkisfjármálunum erum við eingöngu að ná tökum á því að vera með vextina niðri. Þá er ekki verið að tala um að fara að borga af lánunum, það er allt eftir. Menn sjá verkefnið sem fram undan er. Nú erum við alltaf að fá hagvöxtinn neðar og neðar. Hvernig ætlum við að fara að því að ná tökum á árinu 2012?

Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði í umræðum fyrr í vetur: Þó að útlitið sé dökkt 2011, eða ekki eins gott og ætlað var, hef ég miklu meiri áhyggjur af 2012. Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra, það verður mjög erfitt ár, árið 2012, að snúa því við, því að við höfum ekki farið þá leið að reyna að ná inn tekjum á þann veg sem skynsamlegt hefði verið heldur farið í þessa skattpíningarstefnu. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram, að þetta sleifarlag í ríkisfjármálunum er ekkert að byrja núna, það hefur viðgengist hér í áratugi.