139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann sagði sem svo að 1. efnisgrein frumvarpsins væri skýrari og nákvæmari en 1. efnisgreinin í frumvarpi hæstv. fyrrverandi mannréttindaráðherra sem var flutt hér síðasta haust.

Nú vil ég biðja hv. þingmann að vera aðeins skýrari og nákvæmari. Ég spurði nefnilega líka hvort hann teldi þá að líkur hefðu verið á því að þetta mál hefði á einhvern hátt ónýst ef því hefði verið haldið áfram og frumvarpið eins og það var lagt fram síðasta haust hefði verið samþykkt hér óbreytt þá. Þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að hér voru lagðar til mjög umdeildar breytingar í haust. Í raun var ráðist inn í málsmeðferðina sem sneri að Geir H. Haarde. Nú er það upplýst af hv. þingmanni að það hafi verið gert með svo óvönduðum hætti að það hafi orðið að gera þær breytingar sem hér er um að ræða. Þetta finnst mér mikið umhugsunarefni, en í raun alveg í samræmi við allt þetta dæmalausa mál, þetta klúður og það hneyksli sem þetta mál er frá upphafi til enda.