139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú upplýsti hæstv. forsætisráðherra að þær ráðherranefndir sem áætlað er að skipa samkvæmt 9. gr. eru nákvæmlega þær ráðherranefndir sem hæstv. forsætisráðherra sat í sjálf, sem var kölluð fjármálaráðherranefnd í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir hrun. Það er ágætt að þetta er orðið lögfest og að frumkvæði forsætisráðherra sjálfs, vegna þess að það er staðreynd að nefnd fjögurra ráðherra starfaði fyrir hrun og brást ekki við neinu, en þetta er þá orðið lögfest hér.

Mig langar í framhaldinu að spyrja, vegna þess að þessar ráðherranefndir eiga að starfa þvert á andlitslaus ráðuneyti, nafnlaus ráðuneyti samkvæmt frumvarpinu, hvort ráðherrann líti svo á að nú sé komið inn í lög um Stjórnarráð Íslands það sem mjög var mælt með í skýrslu rannsóknarnefndar, að ríkisstjórn Íslands sé nú loks orðið (Forseti hringir.) fjölskipað stjórnvald.