139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[15:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Margir hafa bent á það undanfarin ár að gagnaverin gætu orðið okkur Íslendingum vonarpeningur. Stórt fyrirtæki eða fyrirtæki sem ætlaði sér stóra hluti hóf byggingu á gagnaveri á Keflavíkurflugvelli, Verne Holdings, og við það fyrirtæki var gerður fjárfestingarsamningur. Það tók langan tíma að gera fjárfestingarsamninginn vegna tregðu sumra til að ganga frá samningnum vegna þeirra eigenda sem stóðu að fyrirtækinu en sem betur fer fór það allt saman vel að lokum.

Þá kom næsti fasi, það var að gera skattumhverfið samkeppnishæft. Hér voru, með hjásetu hæstv. fjármálaráðherra, samþykktar breytingar á virðisaukaskattslögunum þannig að hægt væri að flytja inn netþjóna virðisaukaskattslaust sem var forsenda fyrir því að hægt væri að jafna samkeppnisstöðuna við Evrópu. Þarna eru önnur skattaleg álitaefni til að mynda um starfsstöðvar, að þeir sem nýta þessa þjónustu þurfi ekki að vera með starfsstöðvar. En það sem er mikilvægt er að koma þessari starfsemi í gang þannig að hægt sé að fara að nýta sæstrengina af því viti sem þarf til að rekstrargrunnur myndist undir t.d. Farice-strenginn.

Það virðist hafa verið mikil vinna að koma reglugerð (Forseti hringir.) í gang sem gerir þessum fyrirtækjum kleift að nýta sér þessar virðisaukaskattsundanþágur. Mig langar því að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra: Hvar er sú reglugerð? Nú er að verða liðið hálft ár síðan lögin voru samþykkt.