139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við að við þingmenn, líkt og aðrir, endurskoðum og viðurkennum að við hefðum betur gert einhverja hluti öðruvísi og við snúum þeim þá til baka ef það er hægt. Þegar ég hef farið í gegnum þetta frumvarp og fyrri breytingar hef ég staldrað við 4. gr. í núgildandi lögum sem bætt var inn 2007, að heimilt sé að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands. Ég deili ekki við þá sem segja að í stjórnarskránni sé ákveðinn sveigjanleiki að slíkri heimild en þingið hafi þróast með þeim hætti að það sé orðið aðili að því þegar þessum hlutum er breytt. Ég held hins vegar að það sé hollt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvort þetta sé ein af þeim greinum sem eigi hreinlega að breyta þannig að hún verði þá hluti af þeim lagabálki sem kemur alltaf til Alþingis.