139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Ég held, þannig að mín afstaða liggi fyrir í þeim efnum, að það sé betra og farsælla að meginákvarðanir um Stjórnarráðið, þ.e. þann lagaramma sem Stjórnarráðið starfar eftir og lýtur m.a. að því hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu og hvaða málaflokkar heyra undir þau, séu í lögum og afgreiddar á Alþingi. Það er mín grundvallarafstaða í þessu máli. Ég tel að það sé affarasælla en að þetta vald sé hjá ríkisstjórn eða forsætisráðherra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Á því grundvalla ég afstöðu mína við frumvarpið þó að ég taki fram, eins og ég hef margoft gert, að ýmislegt annað í því kunni að vera nýtilegt.