139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:19]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu um Landeyjahöfn og þá merku og mikilvægu framkvæmd er það ekki á hreinu hvort um mistök var að ræða eða ekki. Það mun einfaldlega koma í ljós með tímanum hvort hér er eingöngu um að ræða gosefnavanda eða ekki. Það er svolítið hlálegt að fylgjast með fréttum af því að sjálft sanddæluskipið situr fast í sandinum og getur ekki athafnað sig og ég tel að menn hefðu á upphafsstigum verksins e.t.v. átt að vanda sig betur. Menn virðast ekki vita enn þá hvort hér er um varanlegt vandamál að ræða eða ekki.

Þetta þarf skoðunar við, það þarf að gera úttekt á því hvað fór úrskeiðis. Þetta var framkvæmd upp á milljarða króna af skattfé almennings og ef gerð hafa verið mistök við hönnun hafnarinnar og staðsetningu þarf einfaldlega að koma í ljós hvort það var óskhyggja sem réð för við þessa framkvæmd eða hyggjuvit. Eins og ég sagði áðan er það ekki alveg á hreinu.

Landeyjahöfn er að sjálfsögðu og á að vera hluti af almennri forgangsröðun í samgöngum og hún er þörf framkvæmd. Það er brýnt fyrir Vestmannaeyinga að geta komist upp á land og geta komist heim til sín aftur samdægurs ef á þarf að halda eins og með okkur hin sem viljum heimsækja Eyjar og viljum kannski ekki dvelja þar of lengi að eiga möguleika á því að fara til baka samdægurs.

Þetta snýr hins vegar líka að mikilvægi samgangna annars staðar á landinu og við verðum að forgangsraða í réttri röð. Það eru svæði sem búa við mjög slæmar samgöngur líka. Það þarf að samræma samgöngur á suðvesturhorninu í samræmi við 20/20 áætlunina, tryggja þarf greiðar ferðir yfir Breiðafjörð árið um kring með ferjusiglingum og tryggja þarf betri vegasamgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum og tengingar þess svæðis við byggðirnar fyrir norðan. Þetta eiga að vera þau forgangsatriði sem við leggjum áherslu á en ekki einhverjar ævintýralegar nýframkvæmdir sem (Forseti hringir.) virðast oftar en ekki vera settar í gang af óskhyggju einni saman.