139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem hv. þingmaður endaði á í sambandi við frumvarpið sem við ræðum, sem er reyndar mjög stutt og bara verið að framlengja skipun landsdómsins, þá er alveg hárrétt hjá henni að farið var mjög vel yfir það í ræðum fyrr í dag.

Það sem vakti athygli mína var ræða hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem er flutningsmaður málsins. Hann sagðist hafa kynnt sér það sjálfur prívat og persónulega hvort þetta væru óvenjuleg vinnubrögð eða hvort þau stönguðust á við lög. Hann taldi svo ekki vera en hann gat ekki skorið úr um það sem löglærður maður hvort þetta væru réttarspjöll og það var það sem ég vitnaði til.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef lent í því í þessum ræðustól og jafnvel oftar en einu sinni að segja eitthvað sem ég hefði kannski betur sleppt. Ég tel hins vegar að það hafi ég ekki gert í umræddri ræðu. Ég vil að það komi skýlaust fram að hv. þm. Eygló Harðardóttir er að mínu mati ekki grímulaus kommúnisti. Ég var að lýsa í ræðu minni atburðarásinni þegar hæstv. forsætisráðherra hélt ræðu sína og lýsti yfir andstöðu við málið og því sem gerðist í þingsal þegar sumir hv. þingmenn Vinstri grænna gengu á dyr og ég sá hvernig menn drógu aðra til hliðar og út í horn.

Hv. þingmaður sagði reyndar í andsvari sínu að hún hefði verið mjög ósátt við þá niðurstöðu sem varð, hún hefði talað fyrir annarri niðurstöðu og hefði gert það heiðarlega og samviskusamlega. Ég efast ekki um það svo að það komi skýrt fram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki verið sammála því (Forseti hringir.) sem kom fram í ræðu minni þegar ég sagði það benda til grímulausrar herferðar kommúnista á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hvernig atkvæðagreiðslan fór fram og hvernig sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar höguðu sér í henni.