139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða því frumvarpi sem við höfum verið að ræða, um Stjórnarráð Íslands.

Með frumvarpinu sem ég mæli nú fyrir er lagt til að afnumin verði sú löggjafarframkvæmd að tilgreina heiti ráðherraembætta og ráðuneyta í lögum um einstök málefnasvið og að verkaskipting á milli ráðuneyta verði einvörðungu ákveðin af stjórnvöldum með forsetaúrskurði eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Verður talið að sú breyting sé í fyllra samræmi við 15. gr. stjórnarskrárinnar en af því ákvæði verður ráðið að það sé hlutverk æðstu handhafa framkvæmdarvalds að ákveða verkaskiptingu á milli ráðherra. Þess í stað verði kveðið á um heiti ráðuneyta og fjölda þeirra með forsetaúrskurði, en þó með þeirri takmörkun að ráðuneyti megi ekki vera fleiri en tíu á hverjum tíma. Er þá gert ráð fyrir að nýr forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands verði tæmandi heimild um þau verkefni sem ráðherrar fara með og eiga sér stoð í lögum.

Þessi lagaframkvæmd breytir því hins vegar ekki að það er, samkvæmt beinu ákvæði 15. gr. stjórnarskrárinnar, á valdi forsætisráðherra með atbeina forseta Íslands að skipta verkum með ráðherrum, en ekki löggjafans.

Með frumvarpi þessu, sem er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands, er lagt til að horfið verði frá þeirri löggjafarframkvæmd að telja ráðuneyti með tæmandi hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands og jafnframt að heiti ráðherra og ráðuneyta verði felld brott úr einstökum lögum. Þannig er lagt til að ekki verði kveðið á um það í lögum undir hvaða heiti ráðherra tiltekin málefni og málefnasvið skuli heyra heldur verði verkaskipting milli ráðherra í ríkisstjórn ákveðin alfarið með forsetaúrskurði í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í þessu felast þó í reynd engar breytingar frá núverandi réttarástandi enda verður talið að verkaskiptingarvaldið liggi og hafi legið, óháð fyrri lagaframkvæmd, hjá forsætisráðherra með atbeina forseta og það verði ekki af honum tekið nema með breytingum á stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem um ræðir munu þýða að framvegis verður alla jafna unnt að breyta heitum ráðuneyta og færa málefni milli þeirra án þess að um leið þurfi að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum.

Frumvarpið felur ekki sér neinar efnislegar breytingar á verkefnum ráðherra eða ráðuneyta og þess vegna kalla einstakar greinar þess ekki á skýringar.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.