139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er einfaldlega að benda á að af hálfu þeirra sem um þessi mál fjalla á Norðurlöndum, og ég vísaði sérstaklega til Danmerkur og Svíþjóðar, er því haldið fram að þess séu allt of mörg dæmi að dómurum eða dómum hafi tekist illa upp í reynd þegar dæmd hefur verið sameiginleg forsjá eða henni þröngvað upp á fólk, það hafi ekki gefist vel fyrir barnið. Við bíðum eftir úttekt (Gripið fram í.) og skýrslum sem er verið að vinna að í Danmörku og í Svíþjóð um þessi efni. Við teljum rétt að bíða átekta hvað þennan þátt varðar en leggja þess í stað áherslu á að styrkja sáttaleiðina.

Hvers vegna enda forsjárdeilur fyrir dómi? (Forseti hringir.) Það er vegna þess að sættir hafa ekki tekist. Ég hélt að allir væru sammála um að sameiginlegt markmið okkar ætti að vera (Forseti hringir.) að styrkja þá leið.