139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:42]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar að staldra við 31. gr. frumvarpsins. Sýslumaður hefur hingað til leitað liðsinnis og umsagnar barnaverndar en nú er verið breyta því á þann veg að hann leiti til sérfræðinga. Hæstv. ráðherra benti réttilega á að umgengni er ekki barnaverndarmál, a.m.k. í fæstum tilvikum. Einnig kemur fram hjá hæstv. ráðherra að ráðuneytið þurfi að tryggja fjármagn innan ramma af því að þetta kemur til með að kosta. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að svara hvaðan fjármagnið kemur af því að ekki er tekið á því hér og ekki er gefið skýrt til kynna að fjármagn í þetta verði lagt til heldur er ráðuneytinu ætlað að finna fjármagn til að veita inn í þessa breytingu. Þetta er bætt málsmeðferð, þessi 31. gr. er góð (Forseti hringir.) en hún er ekki góð nema það fylgi henni fjármagn.