139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þannig vill til að í utanríkismálanefnd er þingsályktunartillaga frá mér ásamt fleiri alþingismönnum sem gengur út á það að kjósendur landsins fái að greiða nú þegar um það þjóðaratkvæði hvort halda eigi aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu áfram eða ekki. Ég hef tvisvar sinnum lagt fram breytingartillögu vegna þess að tillagan er föst í utanríkismálanefnd og nú síðast lagði ég fram breytingartillögu um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram eigi síðar en 1. september. Því er ljóst að þessa tillögu verður að taka á dagskrá þingsins nú í maí vegna þess tímaramma sem þjóðaratkvæðagreiðslum er settur, að frá samþykkt þeirra á þingi og fram að atkvæðagreiðslunni skuli líða þrír mánuðir.

Ég spyr því hv. þingmann og formann utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Hvers vegna er þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort halda eigi aðlögunarferlinu að ESB áfram eða ekki, föst í utanríkismálanefnd og ekki afgreidd inn í þingsal svo að málið geti fengið almenna og eðlilega þingafgreiðslu til samþykktar eða synjunar, því að um leið og Alþingi hefur greitt atkvæði um það þá er ljóst hvernig málið liggur? Hvað óttast meiri hlutinn? Af hverju er málið ekki afgreitt frá utanríkismálanefnd og hingað inn?