139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem vilja ekki fara ódýrustu leiðina. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru margsinnis búnir að færa sönnur á hvers vegna það er óskynsamlegt að fara þá leið, margsinnis, af því íbúarnir sem ferðast þarna þekkja leiðina og vita hvað það þýðir að þurfa að fara upp á hálsana.

Hæstv. ráðherra sagði líka að taka þyrfti tillit til umhverfissjónarmiða. Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um það en mín skoðun er sú að ef menn fara hálsana séu hugsanlega ekkert minni og jafnvel meiri umhverfisspjöll af því að fara þá með þeim skeringum sem þar yrðu að vera. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að reyna að höggva á þann hnút sem þarna er uppi vegna þess að ef ekki verður hoggið á hann með því að heimila veglagningu um Teigsskóg mun þetta svæði, þ.e. sunnanverðir Vestfirðir, verða í einangrun ekki næstu eitt eða tvö árin heldur næstu 10 til 15 árin. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því þegar verið er að fjalla um þessi mál að það er algjörlega (Forseti hringir.) óviðunandi ástand.