139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Um leið og einstaklingur er kominn inn á Schengen-svæðið, hvort sem er til Ítalíu, Grikklands, Hollands eða Norðurlandanna, svo dæmi sé tekið, lýkur vegabréfaeftirlitinu. Alkunna er að víða er uppi mikil gagnrýni á framkvæmd landamæraeftirlits í ýmsum löndum þeim sem við felum nú framkvæmd landamæraeftirlits fyrir okkar hönd. Vitað er að gríðarlegur fjöldi ólöglegra innflytjenda er nú búsettur á Schengen-svæðinu. Þeir eiga nú greiða leið hingað til lands. Matskennt persónueftirlit af því tagi sem heimilt verður að viðhafa mun ekki koma í veg að ólöglegir innflytjendur haldi hingað kjósi þeir svo.

Það skrifaði ég í nefndarálit og skipaði þá 2. minni hluta utanríkismálanefndar þegar Schengen-málið var afgreitt á Alþingi. Ég varaði við ýmsum þáttum sem snúa að Schengen-málinu og því miður finnst mér þegar ég skoða það álit í ljósi reynslunnar að ýmislegt af því sem þarna var skrifað hafi komið fram. Ég fagna því þess vegna að það skuli vera ætlunin um að fara af stað með úttekt þar sem reynt verði að meta reynsluna af Schengen og á grundvelli þess mats muni menn síðan taka ákvarðanir um framhaldið. Enn erfiðara eftir tíu ár verður að hreyfa sig en ef menn (Forseti hringir.) hefðu skoðað málin af meiri íhugun fyrir tíu árum síðan.