139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem á að reyna að flýta ferlinu hjá skilanefndum og slitanefndum bankanna til þess að reyna að koma eigendum, kröfuhöfum, að. Stóran hluta tímans erum við að glíma við málaferli, beðið er eftir niðurstöðum, það þarf að kæra inn og það þarf að upplýsa um réttarstöðu og að sjálfsögðu tekur það langan tíma, það er mjög eðlilegt. Ég veit og tek undir það með hæstv. ráðherra áðan að dómsvaldið hefur gert sitt besta í því, en dómsvaldið verður samkvæmt lögum að gæta jafnræðis. Það verður að hleypa öðrum málum að og það má ekki setja þessi mál í forgang, þó að ég skilji það þannig að þau hafi gert það í sumum tilfellum, vegna þess að það eru engin lög sem heimila það. Ef sett hefðu verið lög um að setja þessi mál í forgang af þjóðhagslegum ástæðum vegna þess að það er gífurlega mikilvægt fyrir þjóðina að þau verði leidd til lykta, hefði dómsvaldið hugsanlega getað unnið enn hraðar með vísan í þau lög. Ég lít því ekki á það sem eitthvert inngrip í dómsvaldið eða vanvirðingu á því þegar ég segi að það hefði mátt skipuleggja betur af því að það þarf að gæta ákveðins jafnræðis.

Hæstv. ráðherra gat náttúrlega ekki talað um þetta mál frekar en önnur án þess að vísa í lausnina sem er evran og aðild að Evrópusambandinu sem leysa á öll mál, jafnvel að það verði gott veður og annað slíkt, að lækka vexti og hvað sem er. Að sjálfsögðu leysir evran það ekki og menn þurfa að taka á vandanum og ekki alltaf vera að vísa í eitthvað annað, gera eitthvað betra annars staðar, gera eitthvað auðveldara og koma alltaf með töfrasprota og segja: Við ætlum að leysa þetta svona ef við megum en við getum ekki tekið á vandanum núna af því að hann er svo erfiður og flókinn.

Þetta er allt spurning um skipulag. Vandinn sem við búum við er sá að þeir aðilar sem vinna í þessu kerfi öllu saman hafa kannski áhuga en ekki persónulegan hag af því að málið klárist. Það er vandinn og því þarf að breyta, gefa þeim bónus eða eitthvað slíkt ef þeir klára þetta fyrir ákveðinn tíma eða einhvern veginn að reyna að búa til hvata sem ekki er neikvæður, ekki hvati til þess að vinna hægt.

Ég fór í gegnum það í stuttu andsvari áðan hvaða hagsmunir eru á bak við. Það var eitthvert fyrirtæki um daginn sem komst í hendur einkaaðila og daginn eftir sögðu þeir upp fjölda starfsmanna. Það eru ekkert sérstaklega góðar fréttir að verið sé að segja upp fjölda starfsmanna. Það er mjög slæmt fyrir viðkomandi starfsmenn, sérstaklega þar sem þeirra bíður eiginlega ekkert annað en atvinnuleysi. En það segir mér að það var tekið á vanda þessa fyrirtækis sem ekki hafði verið gert á meðan það var í eigu einhvers banka, einhverra bankastarfsmanna sem höfðu engan sérstakan hag af því að fyrirtækið væri vel rekið af því að þeir áttu það ekki. Það er vandinn í hnotskurn.

Við erum með nánast allt atvinnulífið undir stjórn manna sem eiga ekkert í því og hafa engan sérstakan hag af því að ganga frá málum og þess vegna er þetta allt saman í einhverri biðstöðu og illa rekið. Lítil fyrirtæki kvarta undan því að ekkert sé gert í því að leysa málin samkvæmt Beinu brautinni o.s.frv. Það er vegna þess að þeir sem sitja ofan á eiga ekki batteríið. Kröfuhafarnir eru ekki komnir að dæminu. Ég lofa því að þann dag sem þeir kæmu að dæminu yrði breyting á viðfangsefni þeirra. Þeir mundu segja: Við þurfum að fá hagnað, við þurfum að fá arð, þess vegna þarf fyrirtækið að vera betur rekið. Við verðum að ganga frá þessum samningum strax við fyrirtæki sem eygja einhverja von um rekstur til framtíðar. Það yrði gerð miklu hraðari og harðari gangskör að því að leysa þau mál sem undir liggja og það væri öllum til hagsbóta, eigendunum, starfsmönnunum og alveg sérstaklega íslensku þjóðfélagi af því að þetta er svo stór hluti af þjóðfélaginu.

Þess vegna er það frumvarp sem við ræðum mjög ágætt, það er ágætt skref en það þarf hugsanlega að ganga miklu lengra, hugsanlega þarf að setja tímamörk á t.d. slitastjórnir, að þær megi ekki starfa nema í ákveðinn tíma og þá verði skipuð ný stjórn sem taki við eða eitthvað slíkt.

Ég tel mjög brýnt að ríkisstjórnin vinni hart að því að koma þessum málum öllum á hreint, skuldamálum fyrirtækjanna, skuldamálum heimilanna, það hefur líka dregist von úr viti, alveg úr hömlu. Það er brýnt að menn taki á honum stóra sínum og fari að skipuleggja hvernig þetta verður gert upp. Það hefur liðið allt of langur tími frá því að hrunið varð. Menn geta náttúrlega skotið sér á bak við það að það kom ný ríkisstjórn o.s.frv. en það er líka hætt að vera afsökun fyrir því hvað menn vinna slælega og hægt, alveg sérstaklega þegar menn veifa alltaf einhverju öðru eins og evru eða einhverju slíku, það er bara flótti frá vandamálinu. Menn eiga að taka á vandanum og leysa hann. Það er það sem á að gera og það er það sem ég vonast til að frumvarpinu verði breytt þannig í meðförum hv. viðskiptanefndar, sem ég á reyndar ekki sæti í, að það vinni virkilega að því að koma þessum málum sem allra fyrst á hreint og innan ákveðins tíma.

Ég legg til að hv. nefnd fái gesti til að gefa sér upp hvaða tímamörk séu skynsamleg að setja í þetta og hvernig hægt sé að leysa þessi mál innan ekki allt of langs tíma.