139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að vitna til þeirra sem Morgunblaðið ræddi við heldur átti ég við þann málatilbúnað sem hv. þingmaður byggir á. Um hvaða dylgjur er ég að tala? Af hverju nafngreinir hann ekki þá þingmenn sem hann er að tala um?

Hér segir hann, með leyfi forseta: „núverandi heilbrigðisráðherra“. Í þingsályktuninni segir, með leyfi forseta: „háttsemi ákveðins þingmanns“. Í þingsályktuninni segir í greinargerð að „hún“ hafi staðið út við gluggann og talað í síma og með krepptan hnefa.

Af hverju segir þingmaðurinn ekki hver þessi hún er? Af hverju segir þingmaðurinn ekki hver háttsemi tiltekins þingmanns var, að hans mati? Hvað kjarkleysi og aumingjaskapur er þetta í formanni þingflokks Framsóknarflokksins, að hafa ekki einu sinni dug í sér að koma upp í ræðustól, fyrst honum er svona annt um að rannsaka mál, og nefna hlutina eins og þeir eru? Ég skora á hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Framsóknarflokksins, að koma hér upp og nefna á nafn þá sem hann á við (Forseti hringir.) þegar hann segir „tiltekinn þingmaður“, „hún“ og „núverandi heilbrigðisráðherra“. Hafðu kjark til þess, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson.