139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í garð ráðuneytisins og þann skilning sem hún hefur á störfum þess og starfsmanna þess. Hv. þingmaður sagði að það væri æskilegt að við tækjum harðar upp réttindi samkynhneigðra. Þá vil ég benda hv. þingmanni á það að ég held að ég sé eini utanríkisráðherrann sem a.m.k. síðustu árin hefur tekið þau réttindi upp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í þeirri skýrslu sem er hér undir í umræðunni er sömuleiðis í fyrsta skipti sérstakur kafli um réttindi transgender og samkynhneigðra. Það hefur ekki verið áður.

Varðandi Sýrland þá var afstaða mín gefin út mjög föst og ákveðin í fréttum fjölmiðla sl. fimmtudag þannig að hún liggur fyrir. Það er hugsanlegt að hún sé líka á vef ráðuneytisins en í öllu falli hef ég lýst mjög ákveðnum skoðunum varðandi Sýrland.

Hv. þingmaður segir að það sé bagalegt að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu taki í reynd allan tíma ríkisstjórnarinnar, a.m.k. ráðherra Samfylkingarinnar. Það er nú ekki rétt. Hún tekur ekki einu sinni allan tíma utanríkisráðherra. Verkaskiptingin í Stjórnarráðinu er þannig að ráðuneyti mitt sinnir utanríkismálum. Þar erum við með margt undir og vissulega er Evrópusambandsaðildarumsóknin langstærsta verkefnið. Okkur hefur samt tekist að sinna því verkefni án þess að önnur sitji á hakanum. Þvert á móti höfum við tekið upp ný verkefni líka. Ég nefni til norðurskautsmálin. Það er nýr málaflokkur sem hefur verið skilgreindur sem forgangsmál og það er fyrsta málið í þessari skýrslu sem fjallað er um. Ég get því fullvissað hv. þingmann um það að þrátt fyrir kappsemi utanríkisráðherra gagnvart aðildarumsókninni sinnir hann mörgum öðrum störfum eins og hún veit og er jafnan reiðubúinn til að ræða ný verkefni. Okkur hefur tekist að sinna öllum þessum (Forseti hringir.) verkefnum með því að hagræða og skerpa áherslur og það kostar ekki meira en áður.