139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu og umræðu um hana í dag. Ég vil hefja mál mitt á því að velta upp eða taka aðeins umræðu um hvers konar utanríkisstefnu Ísland býður upp á nú um stundir, á þessu ári og síðustu missirum. Sá sem stendur fyrir utan umræðuna hér í salnum og hefðbundna pólitíska umræðu á Íslandi, við skulum segja erlendur aðili sem væri að fylgjast með íslenskri utanríkisstefnu, sá aðili hlýtur að velta fyrir sér hver hún sé og hver fari með hana. Er það forseti lýðveldisins, sem þreytist ekki á að tala um að Ísland eigi að auka samskipti sín við Asíu og jafnvel Rússland og hefur jafnvel gengið svo langt að ýja að því að við höfum ekkert inn í Evrópusambandið að gera? Við ættum að halda þeirri stefnu opinni, sem var kannski lengi vel stefna Íslands, að byggja á vestrænu öryggisneti og sækja síðan fríverslunarsamninga við sem flest lönd heimsins og standa með eigin utanríkisstefnu hvað varðar mannréttindi og slík mál í alþjóðastofnunum, Sameinuðu þjóðunum og víðar.

Við getum líka velt því fyrir okkur hvort ríkisstjórn Íslands fari með utanríkisstefnuna. Þá virðist það vera þannig að það sé mismunandi eftir því hvaða ráðherra ríkisstjórnarinnar talar, ég tala nú ekki um ef við veltum því fyrir okkur að í þessari samsteypustjórn eru tveir flokkar og þeir tala oft og tíðum alveg í kross hvað varðar utanríkisstefnu, öryggismál og jafnvel umræðu um aðild að Evrópusambandinu.

Að lokum getum við velt því fyrir okkur hvort utanríkisráðherra fari einn með utanríkisstefnu Íslands, hann móti hana og fari einn með hana og sé þar af leiðandi einn til frásagnar um það. Vísbendingar hafa verið um það í umræðunni í dag að í einstaka málum hafi ekki verið borin undir aðra sú stefna eða þær ákvarðanir sem þar hafa verið teknar.

Það sem gladdi mig þó í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og fyrrnefndri skýrslu er hversu framarlega og mikið er lagt upp úr norðurslóða- og nærsvæðisstefnu og hvernig við eigum að nálgast það. Það kom fram í umræðunni áðan að átta lönd fara með og funda um þessa stefnu en það kom líka fram að ýmsir aðrir aðilar vilja komast að norðurslóðasamstarfsvettvanginum. Þar sitja til að mynda sex fastafulltrúar sex frumbyggjasamtaka á svæðinu sem ég tel fullkomlega eðlilegt. Aftur á móti velti ég talsvert fyrir mér hvað fastir áheyrnarfulltrúar ríkja utan norðurslóða, þ.e. Bretlands, Frakklands, Hollands, Póllands, Spánar og Þýskalands, eru að gera þarna því að þar fyrir utan virðast vera fulltrúar ýmissa alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka sem ætti að nægja fyrir glugga alheimsins að norðurslóðum og mikilvægi þess að þar sé farið varlega ekki síst hvað varðar öryggis- og umhverfismál.

Hér hefur líka talsvert verið fjallað um stefnu Framsóknarflokksins í utanríkismálum og ýmsir átt erfitt með að skilja hana, þar á meðal formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Hæstv. ráðherra lét sér duga að lesa eina setningu úr þeirri ágætu ályktun en mig langar, með leyfi forseta, að grípa hér aðeins niður í hana. Þar kemur fram eftirfarandi:

„Meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar og veita öflugt fyrirsvar gagnvart öðrum ríkjum. Sem smáríki á Ísland hag sinn undir því að alþjóðalög séu virt og þjóðir leysi sín deilumál friðsamlega. Eins eru það hagsmunir smáríkja að stuðla að alþjóðlegri samvinnu til þess að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins. Fríverslun og aðgangur að mörkuðum er viðskiptaþjóð eins og Íslandi lífsnauðsyn. Því er það mikilvægt að Ísland njóti ávallt bestu kjara í viðskiptum við aðrar þjóðir.

Ísland skal áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld tryggt hagsmuni Íslands best á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar.“

Síðan er í ályktuninni fjallað um mikilvægi norræns samstarfs og grannsvæða samstarfsins, þ.e. ekki síst hins vestnorræna. Einnig er lögð áhersla á að auka samskipti við nágrannaþjóðir í Norður-Atlantshafi og það rímar þá vel við stefnu þá sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti í sambandi við norðurslóðir vegna loftslagsbreytinga og aukinna flutninga á norðurslóðum, og þó að við getum staðið hér og verið með mismunandi spádóma um hversu fljótt þær leiðir opnast er alveg ljóst að þær eru að opnast. Þar er m.a. fjallað um möguleika okkar á umskipunarhöfn. Og síðan sem er ákaflega mikilvægt að við ættum að hafa frumkvæði að því að setja hér á laggirnar alþjóðlegt öryggis- og björgunarlið sjóferða sem hafi höfuðstöðvar hér á landi. Það eru því mikil vonbrigði að fastaskrifstofa norðurslóða skuli vera staðsett í Tromsö en ekki á Íslandi.

Í þessu samspili að setja hér á laggirnar alþjóðlega björgunarmiðstöð er auðvitað rétt að efla Landhelgisgæsluna, og vegna umræðu sem hér hefur farið fram um að flytja hana á Suðurnesin og byggja þar upp og það séu einhverjir tímabundnir fjárhagslegir erfiðleikar fólgnir í því er þetta klárlega tækifæri til þess einmitt að nýta þá aðstöðu til að byggja upp myndarlega Landhelgisgæslu í samstarfi við alþjóðlega björgunarmiðstöð á Norður-Atlantshafinu. Loks er fjallað um mikilvægi þess að yfirráð og úrvinnslu auðlinda lands og þjóðar þurfi að efla.

Hér hefur verið umræða um stjórn fiskveiða og því er rétt að nefna að í stefnu Framsóknarflokksins er þetta varðar, um nýtingarsamningana, er talið mikilvægt að tengja þá nýtingarsamninga við íslenska búsetu og jafnvel íslenskan ríkisborgararétt og ganga eins langt þar og hægt er til þess m.a. að tryggja raunverulega yfirráð Íslendinga yfir auðlindinni.

Þá er fjallað í ályktun framsóknarmanna um aðild að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku í friðargæslu og hjálparstarfi, að það sé nauðsynlegur þáttur í utanríkisstefnu okkar og markmiðið sé að sinna mannúðar- og neyðaraðstoð við flóttafólk, fórnarlömb náttúruhamfara eða átaka. Síðan um siðferðislegar og pólitískar skyldur sem okkur ber sem ábyrgri þjóð að taka myndarlega á í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í baráttunni gegn fátækt.

Ég hef nú stiklað á nokkuð stóru í flokkssamþykkt framsóknarmanna sem hefur verið mörgum hér ofarlega í huga.

Það eru fleiri hlutir sem hægt væri að nefna í sambandi við þessa skýrslu. Auðvitað er áhugavert að fara hér í umræðuna um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það er ljóst að nú nærri tveimur árum síðar þurfum við að staldra við og velta fyrir okkur um hvaða aðild við vorum að sækja á sínum tíma, 2009, hvaða aðstæður voru á Íslandi þá, hvort staða okkar sé ekki dálítið önnur nú og hvernig lítur Evrópusambandið og evran út nú og kannski til einhverrar framtíðar. Það er alla vega augljóst að nú eru allt aðrar aðstæður og það hlýtur að kalla á að við endurskoðum stöðu okkar í þessu máli, a.m.k. að við skerpum þær áherslur sem við höfum haft í þeim mikilvægu og viðkvæmu málaflokkum er tengjast sjávarútvegi ekki síst en landbúnaði einnig.

Það hefur komið fram í umræðunni í dag að opna á umræður í svokölluðum fimm flokkum með því að flagga þar samningsmarkmiðum en geyma það fram á haust og jafnvel lengur að taka umræðuna í sambandi við landbúnaðinn og sjávarútveginn. Mér hefði þótt miklu eðlilegra að við færum ofan í það mál strax, skýrðum þá stefnu sem við höfum og sett var í þá þingsályktun sem samþykkt var 2009 með litlum meiri hluta. Sá sem hér stendur greiddi reyndar atkvæði gegn því þar sem hann treysti því ekki að þar væri verið að verjast á sem bestan hátt, verja hagsmuni Íslands, eins og við tölum um, framsóknarmenn, í 1. gr. í sambandi við ályktun um utanríkismál. Svo virðist ekki vera. Hér virðist stefnt að því að fara í að klára ýmsa þætti alveg óháð því að það gæti endað með að viðræðurnar sigldu í þrot vegna þess að við værum að flagga meginhagsmunum okkar og það kæmi í ljós að Evrópusambandið gæti engan veginn orðið við þeim, eðlilega ekki. Halda menn að 27 þjóðríki, 500 milljóna þjóð, sé að fara að semja við okkur Íslendinga, 320 þúsund hræður? Það er auðvitað alveg augljóst að við yrðum að aðlaga okkur að því kerfi og þess vegna hefði verið (Forseti hringir.) mikilvægara að láta reyna á það sem fyrst hvar mundi reyna á og slíta þeim viðræðum þegar það hefur gerst.