139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins um Schengen þá er ég tilbúinn að taka þátt í umræðum um það með hv. þingmanni hvernig við getum komið fyrir landamæragæslu okkar og upplýsingaöflun sem varðar starfsemi skipulagðra glæpahópa og þess háttar. Fyrir fram held ég að við eigum ekki að binda okkur við neitt í því sambandi. Ég bendi bara á að mjög mikilvægur liður í upplýsingaöflun lögreglu og dómsmálayfirvalda á Íslandi fer nú fram í gegnum Schengen þannig að ef við gengjum úr Schengen þyrftum við að finna aðrar lausnir til að mæta sömu þörfum.

Varðandi aukaaðild að ríkisstjórn gat ég ekki hjá því komist að nefna það vegna þess að í tengslum við Líbíumálið kemur fram að ríkisstjórnin hefur eina stefnu en annar aðildarflokkur ríkisstjórnarinnar hefur aðra stefnu, sem er mjög sérstakt. Sama á auðvitað við um Evrópusambandsmálið, sem er (Forseti hringir.) miklu stærra mál. Þar er uppi sú einkennilega staða að annar stjórnmálaflokkurinn í stjórnarsamstarfinu hefur (Forseti hringir.) vegna hagsmuna af því að vera í ríkisstjórn látið hinum það eftir að draga okkur inn í Evrópusambandsumsókn.