139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka umræðuna í lok langs dags. Hún hefur að mörgu leyti verið skemmtileg og fróðleg og hún hefur verið málefnaleg. Mér finnst að hv. þingmenn sem tekið hafa þátt í umræðunni hafi flutt mál sitt skýrt og hún hefur verið laus við það sem stundum einkennir umræður hér, hún hefur verið orðvör og gætin og engin sérstök köpuryrði fallið. Menn hafa rætt þetta af verulegum þrótti.

Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín sem ég ætla að reyna að svara og koma með nokkrar athugasemdir við ýmislegt.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kallar eftir samráði þegar kemur að því að móta samningsaðstöðuna. Þingið hefur lagt fram mjög skýran leiðarvísi um hvernig eigi að haga því og það samráð sem hv. þingmaður kallar eftir er þegar til staðar. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið til þessa, þó þær varði kannski ekki jafnmiklu og samningsafstöðu, hafa verið kynntar og ræddar eftir atvikum við utanríkismálanefnd eða þann fimm manna starfshóp sem sinnir Evrópumálum af hennar hálfu þar sem stjórnarandstaðan hefur meiri hluta. Þar fyrir utan hafa kaflarnir sem kannski eru taldir erfiðastir og hugsanlega umdeildustu greinargerðirnar vegna rýnivinnunnar verið bornir undir fagnefndirnar. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að haldnir hafa verið tveir eða þrír fundir um þrjár eða fjórar greinargerðir með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Nú síðast var ræddur einn af þeim köflum sem mér finnst hvað gagnmerkastur, og greinargerð með honum, þ.e. 17. kafli um myntbandalagið og hugsanlega þátttöku Íslands í því. Hann var ræddur, ekki bara í utanríkismálanefnd heldur líka efnahags- og viðskiptanefnd. Það er mjög merkur kafli þar sem m.a. kemur fram hjá vísustu mannvitsbrekkum Íslands á þessu sviði að mjög ólíklegt sé — í minni túlkun — og mjög erfitt að sneiða hjá því að álykta að án þess að taka upp nýja mynt, í þessu tilviki evruna, verði einhvers konar gjaldeyrishömlur hlutskipti Íslands um ókomna tíð.

Ég held líka að ég muni það rétt að eftir tilteknar ábendingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafi einhverju orðalagi verið hnikað til. Það skiptir kannski ekki máli. Mér finnst að spurning hv. þm. Birgis Ármannssonar sé að eðli til að ýmsu leyti lík spurningunni um hvernig utanríkisráðherra hagar sér þegar hann tekur ákvörðun um að beita ekki neitunarvaldi Íslands í Atlantshafsbandalaginu þegar um er að ræða hernaðarátök.

Varðandi ESB liggur ljóst fyrir að utanríkisráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á því ferli. Vegna þess að ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald getur utanríkisráðherra tekið slíka ákvörðun eins og ég tók. Utanríkisráðherra verður hins vegar jafnan að gæta að stöðu sinni gagnvart þinginu og ríkisstjórn, þ.e. þó hann sem handhafi framkvæmdarvalds sem ekki er partur af fjölskipuðu stjórnvaldi geti leyft sér að taka ákvarðanir sem kunna að vera umdeildar, verður hann að gæta sín að ferðast ekki það langt frá því sem hann, eftir að hafa kannað það, álítur vera vilja þingsins, að menn verði viðskila.

Ef við tökum t.d. ákvörðunina um Líbíu þá taldi ég mig hafa fyllstu ástæðu til að ætla að fyrir henni væri vilji í þinginu. Ástæðan er eftirfarandi: Eftir tvær utandagskrárumræður lá algjörlega ljóst fyrir að þingið vildi að svokallað „No-Fly Zone“ yfir Líbíu yrði framkvæmt. Það gera menn ekki án þess að beita valdi, án þess að beita flugvélum og með árásum í varnarskyni ef því er að skipta. Það lá algjörlega ljóst fyrir af hálfu allra flokka og hvers einasta þingmanns sem tók þátt í tveimur utandagskrárumræðum að vilji væri til að gera það svo fremi sem öryggisráðið samþykkti slíka ályktun. Það gerði öryggisráðið. Atlantshafsbandalagið kom síðar inn sem samræmingaraðili. Sá möguleiki var kynntur fyrir utanríkismálanefnd þar sem hv. þingmaður á sæti og flokkur hennar á tvo fulltrúa. Þar gerði enginn athugasemdir við þetta, a.m.k. ekki samkvæmt þeim fregnum sem ég hafði gegnum starfsmenn mína. Þar að auki var þetta á forsíðum allra fjölmiðla heimsins í fimm daga. Allir vissu að hverju stefndi. Þessa tvo daga hér á Íslandi var þetta í hverjum einasta fréttatíma í ríkisfjölmiðlunum og fleiri miðlum.

Eigi að síður kann vel að vera að við slíkar aðstæður verði utanríkisráðherra, kannski ekki í þessu tilviki en í einhverju tilviki, viðskila við vilja ríkisstjórnar eða þings á sama hátt og ef utanríkisráðherra í krafti stjórnskipulegs valds síns yfir Evrópuumsóknarferlinu yrði viðskila við vilja þingsins í mikilvægum efnum. Þá svarar þingið því bara með einum hætti. Það er aðhaldið sem beitt er á utanríkisráðherra. Það sýnir honum að hann nýtur ekki lengur stuðnings þess. Að því verður utanríkisráðherra hverju sinni að gæta.

Svo ég svari spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar þá verða þau mál sem eru mjög viðkvæm, sérstaklega í nokkrum köflum, borin undir utanríkismálanefnd og verða rædd í nánu samráði við hana.

Ég segi hins vegar hv. þingmanni að ég skil mína stöðu þannig að ég geti tekið ákvarðanir en verði að bera ábyrgð á þeim gagnvart þinginu. Það gæti ekki gerst oft að meira en blæbrigðamunur yrði á afstöðu utanríkisráðherra og þingsins án þess að skipt yrði um utanríkisráðherra. Það er aðhaldið.

Ég hef verið mjög ánægður með umræðuna sem hér hefur farið fram um norðurskautsmálin. Ég er sammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að of lítil áhersla hefur verið lögð á þau mál en hún er miklu meiri núna. Þetta hefur verið skilgreint sem forgangsmál. Þingið hefur núna samþykkt nýja stefnu og nú er það okkar að gera framkvæmdaáætlun til að fylgja henni eftir. Við höfum, eins og hv. þingmaður sagði, margvísleg landfræðileg rök sem hníga að því að við ættum að geta gert töluvert tilkall til norðurskautsins. En eins og hv. þingmaður benti á er að vísu einn hængur á. Hann heitir Jan Mayen. Við afsöluðum okkur með samningum Jan Mayen sem aldrei skyldi verið hafa.

Ég vil líka rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þingið kostaði útgáfu doktorsritgerðar Jóns Dúasonar um Grænland í þremur bindum, sem ég hef lesið. Við misstum líka Grænland en höfðum fullt tilkall til þess samkvæmt rökum Jóns Dúasonar.

Mér þótti hins vegar merkilegur blæbrigðamunurinn á afstöðu einstakra þingmanna Framsóknarflokksins. Hv. formaður Framsóknarflokksins sagði að of lítil áhersla væri á norðurskautsmálin. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hins vegar að allt of mikil áhersla væri á þau vegna þess að ég væri augljóslega að nota norðurskautsmálið til að gera okkur tilkippilegri fyrir Evrópusambandið og smygla okkur þar inn. Þannig rekur sig margt hvað á annars horn.

Hv. þm. Pétur Blöndal ræddi skatta á utanríkisþjónustustarfsmenn. Allir starfsmenn utanríkisráðuneytisins borga fulla skatta eins og aðrir. Útsendir starfsmenn fá grunnlaun og borga skatt á þau. Þeir fá líka staðaruppbætur sem eru eins og kostnaðargreiðslur og farið með þær gagnvart skattinum eins og aðrar slíkar greiðslur, að því er ég best veit.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi Írak og Líbíu. Þar er ekki saman að jafna. Hvað Írak varðar var algjörlega ljóst að ályktun öryggisráðsins lá ekki fyrir sem heimilaði aðgerðir þar, þar af leiðandi var innrásin ekki lögmæt. Öðru máli gilti um Líbíu. Ályktunin lá fyrir og þess vegna hafði hún alþjóðlegt lögmæti. Í tilviki Íraks var farið þar inn undir fölsku yfirskyni til að finna gereyðingarvopn sem aldrei fundust og voru ekki til og síðari tímar rannsóknir hafa leitt í ljós og eru enn frekar að leiða í ljós í Bretlandi núna, að voru uppspuni.

Þá kem ég að þeirri spurningu sem stjórnmálamenn standa stundum frammi fyrir. Hún er þessi: Hvað gera stjórnmálamenn þegar þeir standa frammi fyrir stöðu eins og þegar Gaddafí var að fylkja sveitum sínum gagnvart íbúum Bengasi og lýsti því yfir gagnvart öllum heiminum að hann mundi engu eira? Hvað gera menn þá? Eiga menn að láta það aftra sér að koma saklausum íbúum til verndar að þeir eru á móti hernaði almennt og láta murka úr saklausu fólki lífið? Það er erfitt að svara þessu. Ég svaraði þessu með mínum hætti.

Hið sama á við um mórölsku spurninguna um Úganda. Fram kom í þinginu í Úganda frumvarp sem fól klárlega í sér mannréttindabrot. Eigum við þá að kalla til baka þróunaraðstoð til Úganda og láta saklaust fólk gjalda þess?