139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

aðgerðir NATO í Líbíu.

[14:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er hér í salnum. Jafnframt væri fróðlegt fyrir menn að beina fyrirspurnum um sjávarútvegsmál til sjávarútvegsráðherra, en ég skal svara fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Það er algerlega ljóst að við fordæmum árásir ef þær eru í íbúðahverfi eða tilgangur þeirra er sá að taka af lífi einstaka aðila án dóms og laga. Það gerum við. Ég er sammála þeim flokkssystkinum mínum sem væntanlega hafa tjáð sig á þeim nótum hér í gærkvöldi. Það skal vera algerlega hafið yfir allan vafa að ef aðgerðir í einhverjum tilvikum fara út fyrir það sem hægt er að túlka örugglega og skýrt innan ramma ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fordæmum við það. Þá ályktun töldum við hins vegar eðlilega í ljósi þeirra aðstæðna sem þarna voru uppi og verður að hafa í huga að ekki var þægilegt fyrir alþjóðasamfélagið að horfa upp á það að lífi óbreyttra borgara væri stefnt í voða í stórum stíl, samanber hótun generáls Gaddafís um að þeir eirðu engu ef hann réðist inn í Bengasí eða Misrata. Við vorum ekki aðilar að ákvörðun sem utanríkisráðherra tók og er stjórnskipulega á ábyrgð hans og auðvitað á valdsviði hans (Gripið fram í: Íraksstríðið?) að heimila fulltrúa okkar hjá Atlantshafsbandalaginu að standa að þeirri ákvörðun sem þar var tekin. Það hefur komið fram opinberlega og við lýstum því strax að sú ákvörðun hefði verið tekin án aðildar okkar. Afstaða okkar liggur fyrir og er í fullkomnu samræmi við þá afstöðu sem við höfum haft. Ég minni að lokum á að við erum andvíg aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO. (Gripið fram í.)