139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

[14:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. En að hæstv. ráðherra taki sér a.m.k. hálfan mánuð í að velta fyrir sér hvort hún eigi að staðfesta samning sem undirstofnun ráðherrans, Umhverfisstofnun, hefur verið að vinna að í allan vetur, drögin lágu fyrir um miðjan mars, og það tók allan aprílmánuð að fá undirskrift forstjóra Umhverfisstofnunar á samninginn vegna einhverra þeirra atriða sem fram hafa komið. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé að í stjórnsýslunni? Við höfum rætt það fyrr við hæstv. ráðherra í vetur. Það skyldi þó ekki vera að áskorun frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, sem í eru tengdir aðilar sem lúta að sérhagsmunum svæðisins en ekki almannahagsmunum, sé að hafa áhrif á ákvörðun ráðherrans og þann hraða sem ég hélt að ætti að vera á þessu máli? Ég hélt að það væri ekki aðeins ég sem hefði áhuga á þessu máli, ég hélt að hæstv. ráðherra hefði líka áhuga á að hefja uppbyggingu í friðlandi á Íslandi og Dyrhólaey væri kjörið tækifæri til þess.