139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því, eins og ég hef oft gert áður, að þakka samstarfsfólkinu í hinni háu félags- og tryggingamálanefnd fyrir samstarfið. Mér finnst hafa farið fram vönduð og innihaldsrík vinna við að veita umsögn og fjalla um það mikilvæga plagg sem jafnréttisáætlun er. Ég ætla ekki að fara af neinni dýpt í einstaka liði jafnréttisáætlunarinnar í þessari ræðu eða rekja röksemdir fyrir breytingartillögum sem við gerum. Það er ágætlega rakið í fínu nefndaráliti sem nefndin stendur öll að.

Ég ætla hins vegar að nota tilefnið til að deila með þingheimi vissum hugleiðingum sem poppuðu upp í mínum kolli við það að fara yfir þessi mál. Mér finnst þetta hafa verið lærdómsríkt og það var margt sem opnaði augu manns í þeim flókna og viðamikla málaflokki sem er jafnréttismál. Ég ætla að rekja ákveðna gagnrýni sem mér fannst tilefni til að halda á lofti í nefndarstarfinu gagnvart plagginu í heild sinni eftir að það barst okkur. Þó að breytingartillögur hafi margar hverjar verið til góða finnst mér enn að plaggið sé of ósamstætt, að jafnréttisáætlunin taki einhvern veginn of mikið mið af því að auglýst sé eftir tillögum frá einstökum ráðuneytum; síðan eiga að rata inn í jafnréttisáætlunina tillögur frá öllum ráðuneytum.

Ég vakti máls á þessu í nefndarstarfinu og það varð tilefni til umræðu um það hvort nauðsynlega þyrfti að vinna þetta svona. Við fengum þau svör í nefndinni, frá þeim sem unnu að gerð plaggsins, að menn hefðu einmitt reynt að sporna við þessu, að reynt hefði verið að hafa einhverja miðlæga hugsun í þessu. Miðlæg hugsun í gerð jafnréttisáætlunarinnar hefur því þrátt fyrir allt vaxið og ég fagna því. En ég held að hún þurfi að vera enn meiri. Ég held að það geti háð jafnréttisáætluninni ef við ýtum ekki betur til hliðar þeirri tilhneigingu, sem virðist einhvern veginn vera innprentuð í okkur, að frá hverju einstöku ráðuneyti þurfi að koma tillögur að verkefni í jafnréttismálum, að hvert ráðuneyti þurfi að vinna slíkt verkefni fyrir sig.

Þessi galli er, þrátt fyrir breytingartillögur, enn á vinnulaginu og birtist meðal annars í því að tillögur frá iðnaðarráðuneytinu og frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eru keimlíkar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ætlar að kanna stöðu kynjanna í landbúnaðar- og sjávarútvegsstörfum en iðnaðarráðuneytið ætlar að kanna stöðu kynjanna í störfum úti á landi. Þetta einstaka dæmi varpar kannski ljósi á það sem ég er að gagnrýna og við þurfum að breyta þessu. Þarna virðast ráðuneytin hvort um sig hafa komið með tillögur sem skarast. Betra hefði verið að miðlæg hugsun hefði náð það langt að þessi tvö verkefni hefðu einfaldlega verið sameinuð í eitt allsherjarverkefni sem gengi út á það að kanna stöðu kynjanna í störfum úti á landi; það að kanna stöðu kynjanna í störfum í sjávarútvegi og landbúnaði hefði þá verið hluti af því að kanna stöðu kynjanna í störfum úti á landi.

Þessi stífa hugsun leiðir líka til þess að við dreifum kröftum okkar of mikið. Það kemur þá að annarri gagnrýni, þ.e. að sumum liðunum fylgi lítið fjármagn, upphæðirnar eru allt niður í 300 þús. kr. til sumra rannsóknanna. Ástæðan fyrir því að það fylgir svona lítið fjármagn er kannski sú að við erum þó enn að dreifa kröftum okkar of mikið þar sem hvert og eitt ráðuneyti verður að koma með tillögur.

Birtingarmynd þessa kann líka að vera sú að sumir liðir jafnréttisáætlunarinnar virtust vera — þó að nefndin hafi núna skerpt á hugsuninni með breytingartillögum — býsna óskýrir, eins og það að jafna stöðu kynjanna í félagslífi í framhaldsskólum. Hv. menntamálanefnd gagnrýndi til dæmis þennan lið og við í félags- og tryggingamálanefnd skerpum á þessum lið og reynum að skýra markmiðin betur. Mér fannst líka „Konur og loftslagsmál“ svolítið óljóst verkefni og „Konur og kvikmyndagerð“ líka. Og við í félags- og tryggingamálanefnd lögðum ríkari áherslu á að rannsaka frekar „Konur og fjölmiðla“ þó að enn eigi að efla „Konur og kvikmyndagerð“.

Það kann að vera að ef of margir í kerfinu eru látnir koma með hugmyndir að verkefnum í jafnréttismálum, án þess endilega að hafa þær, ef of margir í ráðuneytunum eru beðnir um setja fram eitthvert innlegg í jafnréttisáætlun, að útkoman verði of margar óskýrar hugmyndir, of margar hugmyndir sem hafa ekki fjármagn og kannski of margar hugmyndir sem eru til þess eins að dreifa kröftunum frá stærstu og mikilvægustu verkefnunum í þessum málaflokki.

Þeir sem unnu að gerð jafnréttisáætlunar fullvissuðu nefndina um að vinnulagið hefði verið verra hvað þetta varðar, að jafnréttisáætlanir fyrri ára hefðu litast miklu meira af þeirri hugsun að mjög margir ættu að koma með hugmyndir sem síðan rötuðu nánast óbreyttar inn í skjalið; miðlæg hugsun hefur sem sagt verið efld, en ég held að það þurfi að efla hana enn frekar.

Svo er það þessi umræða um jafnréttisáætlun — eins og maður vissi eru verkefnin ærin. En nefndin kemur auðvitað ekki, og jafnréttisáætlun ekki heldur, með nein svör við því hvernig glíma eigi við kynbundinn launamun. Þetta virðist vera einhvers konar eilífðarverkefni en þó reynum við að stíga skref í rétta átt með jafnréttisáætlun. Það fór fram ágætisumræða í nefndinni og með gestum hennar um kynbundinn launamun og meðal annars er það íhugunarefni fyrir okkur öll, eins og margoft var vakið máls á í þessari umfjöllun, að konur virðast sækja í störf sem eru lægra launuð á meðan kannski sambærileg störf sem karlar sækja í eru hærra launuð. Og hver er ástæðan? Þetta er náttúrlega milljón dollara spurning, svo að ég noti það orðalag.

Það hangir líka margt á spýtunni varðandi kynbundinn launamun og ég sakna þess kannski, og lýsti nú þeirri skoðun minni strax í upphafi þegar þetta skjal kom inn í þingið, að meira væri fjallað um aðstöðu fólks í daglegu lífi. Nú er ég til dæmis bráðum að fara að sækja dóttur mína í skólann og fagna því þess vegna að ég er í ræðustól núna, það mundi baka mér erfiðleika ef ég yrði að vera í ræðustól síðar í dag. Auðvitað kannast allir við þetta sem eiga börn og slæm aðstaða í dagvistun barna, svo að dæmi sé tekið, bitnar verr á konum ef launamunur er kynbundinn í samfélaginu.

Þarna erum við þá strax komin í vítahring sem leiðir til þess að konur geta kannski ekki stundað vinnu sína af jafnmikilli ákefð og karlar vegna þess að slæmur aðbúnaður í dagvistun barna bitnar frekar á þeim, þær afla þá minni tekna, eða hvað? — maður veit ekki alveg hvað kemur á undan eggið eða hænan. En í öllu falli hangir þetta á sömu spýtunni. Það þarf að laga aðstöðu í daglegu lífi yfir höfuð þannig að hún hafi ekki áhrif á það hvort við getum stundað vinnu okkar af kappi.

Annað sem maður rakst á í þessari vinnu er að það vantar tilfinnanlega tölfræði um þessi mál. Til dæmis er mikið fjallað um stöðu einstæðra mæðra. Þegar farið er í saumana á þeirri umræðu sjáum við, og vitum það öll, að einstæðar mæður eru ansi margbrotinn hópur. Þær geta verið formenn í skilanefndum, bankastjórar eða yfirlæknar og haft verulega há laun. Fordómar okkar í garð einstæðra mæðra birtast mjög skýrt í frægri fyrirsögn í einhverju blaði, hún var svohljóðandi: „Einstæð móðir vann í lottó“. Okkur var þá öllum uppálagt að hugsa um þessa staðalímynd af einstæðu móðurinni, að hún hlyti að vera mjög fátæk. (Gripið fram í.) Já, sjálfstæðar mæður er kannski betra hugtak.

Í þessari vinnu var það alveg æpandi að það þarf að greina þennan hóp, þennan stóra hóp sem ítrekað kemur út á þann veg að hann hafi það verr en aðrir hópar, miklu betur til þess að geta ákveðið hvaða aðgerðir virka, út í hvað eigi að ráðast. Við þurfum að skoða hvort einstæðar mæður með menntun eru hugsanlega betur settar en einstæðar mæður með enga menntun. Ef við komumst að því þá getum við kannski sniðið úrræði okkar betur. Það kom mér á óvart og þó ekki, ég veit það ekki, að það vantar tölfræði um þetta.

Þetta var það helsta sem ég vildi fjalla um í tengslum við jafnréttisáætlun, bara hugleiðingar um þessi mál. Ég lýk þessu á því að vekja athygli þingheims á nýjum tölum sem við vorum að taka saman um kynjahlutföll í lögbundnum nefndum og fyrirtækjum og starfshópum ráðuneyta sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur skipað í frá maí 2009 til maí 2011, sem sagt kynjahlutföllin hjá fulltrúum Framsóknarflokksins í þessum nefndum og fyrirtækjum og starfshópum ráðuneyta. Þetta eru einkar fínar tölur og ég ætla að enda þessa ræðu mína á því að monta mig af þeim fyrir hönd flokksins.

Konur eru 34 í þessum nefndum og fyrirtækjum og starfshópum ráðuneyta og karlmenn eru 36, þannig að 51% eru karlar og 49% konur. Ég held að það sé alveg ágætur árangur. Ég vona að enginn sé svo smásmugulegur að fetta fingur út í það að karlar eru þó 51% en konur 49%. Auðvitað hefði verið flottara ef þetta hefðu verið 50% og 50%, en svona er nú lífið. Ég held að þetta ætti líka að vekja okkur til umhugsunar um það að jafnréttismálin snúast um það að hver og einn einstaklingur, hvert og eitt fyrirtæki, félög og stofnanir, hugsi um þessi mál og reyni að hafa þau í lagi í sínum ranni.