139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við vorum að ræða í hv. félagsmálanefnd í morgun um opinn tékka til að greiða út bætur í samræmi við þennan kjarasamning því að það liggur ekki enn þá fyrir hvaða leið verður farin. Þar er um að ræða umtalsverðar fjárhæðir og ég ítreka spurninguna hvort ekki sé brýnt, af því að það má í rauninni ekki greiða neitt úr ríkissjóði nema samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum, að fram komi fjáraukalög um alla vega þau útgjöld um leið og það er samþykkt. Ef hæstv. fjármálaráðherra gerir það ekki mun ég líklega gera það, koma með fjáraukalög til þess að hægt sé að greiða út þessar bætur.

Enn ein spurning er um kjarasamning opinberra starfsmanna, hvort farið hafi verið út í það, og hvort það að skattleggja lífeyrissjóðina fari saman við upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu í morgun, um að hækka þurfi iðgjöld í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á meðan aðrir lífeyrissjóðir eru bæði lestaðir með skattlagningu hér og þurfa (Forseti hringir.) væntanlega að mæta alls konar áföllum.