139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að lánasöfn lífeyrissjóðanna hafi verið oftryggð með lánskjaravísitölunni. Nú er lífeyririnn hjá lífeyrissjóðunum með nákvæmlega sömu tryggingu, er hann þá að segja að lífeyririnn hafi verið oftryggður líka? Hefði hann kannski ekki átt að hækka svona mikið?

Varðandi umræðuna um 3,5% ávöxtun hafa góðir fjárfestingarkostir verið til á Íslandi alla tíð því að meðalávöxtun lífeyrissjóðanna hefur verið 3,5% og vel það síðustu 20–30 árin frá því að verðtryggingin var tekin upp, frá 1980 má segja. Hún bjargaði lífeyrissjóðunum en var reyndar mjög þungbær fyrir aðra, sérstaklega skuldarana. Nú horfir svo við að engir góðir fjárfestingarkostir eru til, hvergi er fjárfest, enginn vill fjárfesta og allt er í kyrrstöðu, deyfð og doða. Spurningin er þá hvort lífeyrissjóðirnir muni geta náð 3,5% ávöxtunarviðmiðun og hvort við þurfum ekki að miða við lægri ávöxtun. Það mundi hafa gífurleg áhrif á sjóðina, þá þyrfti að skerða lífeyri frá þeim mjög mikið en nota bene, frú forseti, bara hjá þeim sem ekki eru opinberir starfsmenn. Hér er lagt til að skattleggja lífeyrissjóði þeirra sérstaklega, það hefur engin áhrif á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins af því að ríkissjóður þarf að borga það sem vantar hvort sem er, þ.e. skattgreiðendur. Þess vegna mun allt þetta kerfi verða mjög neikvætt fyrir hinn almenna launþega og atvinnulífið í landinu sem í reynd stendur undir öllu heila batteríinu og opinbera kerfinu, bæði greiðslum til lífeyrisþega og alls konar annarra samfélagsverkefna.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að leggja svona miklar byrðar á atvinnulífið og launþega.