139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þetta frumvarp, sérstaklega þar sem hann kom inn það á í síðasta andsvari sínu áður en ég kom upp að Evrópusambandsandstæðingar hafi haldið því fram að það væri klárlega ekkert mál fyrir þingmenn að leggja fram breytingar á Alþingi Íslendinga í sömu átt og Evrópusambandið er með telji þeir það jákvætt fyrir Ísland. Það kemur skýrt fram í því frumvarpi sem hv. þingmaður leggur hér fram og í greinargerð með því að það er einmitt verið að leggja til að við tökum upp það kerfi sem Evrópusambandið hefur í þessum efnum og er ljóst að við munum taka upp ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það er einmitt þetta sem ég og fleiri höfum bent á að hv. þingmenn geti gert ef þeir vilja koma málum í gegn, þ.e. að leggja þau fyrir Alþingi Íslendinga. Verður fróðlegt að sjá hvort meiri hluti er á Alþingi fyrir þessu máli sem hv. þingmaður mælti fyrir í dag. En ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er algjörlega andsnúinn málinu eins og það er lagt upp og þeirri hugmyndafræði sem þar býr að baki.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni og eins í andsvörum inn á þá einangrun sem gæludýr þurfa að ganga í gegnum þegar þau koma til landsins. Hann fór reyndar líka yfir hvernig þetta hafi breyst í gegnum tíðina og verið rýmkað. Við höfum verið að rýmka það einangrunarferli sem gæludýr þurfa að ganga í gegnum þegar þau koma hingað til lands. Ég tel að eins og þessi mál standa hjá okkur núna sé þetta orðið mjög hæfilegt. Hv. þingmaður þarf ekki að fara með gæludýrin sín norður í land, í Hrísey. Er þetta ekki orðið temmilegt? Hví skyldum við ganga lengra? Sérstaklega ef litið er til marga sjúkdóma sem geta klárlega borist með þessum hætti þá er þetta ekkert óeðlilegt og í ljósi þess hversu lítið er af slíkum sjúkdómum hér, ekki bara í gæludýrum heldur líka íslenskum búfénaði. (Gripið fram í.) Hvaða sjúkdómar? spyr hv. þingmaður. Ég nefni til að mynda í sauðfjárrækt. Þar er um að ræða gin- og klaufaveiki. Við getum tekið hestapestina sem kom upp nýverið og olli tugmilljóna króna tjóni í útflutningstekjum fyrir okkur Íslendinga. Íslensk hrossarækt sem hefur verið vaxandi atvinnugrein er ekki búin að ná sér á skrið aftur eftir að sú pest kom upp. (Gripið fram í.) Við erum klárlega að leika okkur að eldinum með því að rýmka þetta meira en orðið er. Þarna eigum við að ganga fram af mikilli varkárni.

Eitt af þeim atriðum sem menn hafa haft áhyggjur af við Evrópusambandsaðild er einmitt það að flutningur dýra á milli landa rýmkist of mikið, ekki bara á gæludýrum heldur líka á búfénaði. Gæludýr geta klárlega borið með sér sömu sjúkdóma og búfénaður og þess vegna er ekkert óeðlilegt, og í ljósi þess höfum við rýmkað þessar reglur töluvert á undanförnum árum, að þeirri einangrun og því ferli sem er við lýði í dag sé við haldið.

Það kom fram í umræðunni áðan að þetta evrópska kerfi fæli það í sér að hvert og eitt gæludýr fengi einhvers konar vegabréf og gæti þar af leiðandi farið á milli landa rétt eins og við með okkar vegabréf og að þetta kerfi sé til mikillar fyrirmyndar. Þegar ég heyrði þetta og las þetta í frumvarpinu varð mér hugsað til ákveðins sýnidæmis í landbúnaði hjá Evrópusambandinu og er kannski ágætt að koma inn á það hér og deila því með þingheimi þó að það tengist þessu með óbeinum hætti. Þannig er að það eru ekki einungis gæludýr sem þurfa að hafa slík vegabréf og það sé vegabréfaeftirlit með gæludýrum, það á við um allan búfénað í Evrópusambandinu líka.

Ég er í ágætu sambandi við bændur mjög víða og á til að mynda einn góðan vin í Bretlandi sem rekur tvö stór kúabú þar. Ég náði því á síðasta ári að heimsækja þetta bú, þetta er í Suður-Englandi, vel rekið bú. Þessi ágæti bóndi mælir með því að við Íslendingar höldum okkur utan Evrópusambandsins en það er nú önnur saga. Þegar ég kom inn á skrifstofuna hans, hann bauð mér inn á skrifstofuna sem hann er með þarna, spurði ég: Bíddu, hvaða rosalegu skápar eru þetta sem þú ert með hér á veggjunum? Þeir náðu alveg frá gólfi og upp í loft með fullt af litlum skúffum. Hann sagði: „Jú, þetta er þetta ágæta Evrópusamband.“ Og hann dró út eina skúffuna og í henni voru 50 vegabréf. Þarna var veggur þakinn af skúffum og í hverri skúffu voru 50 vegabréf og þetta þurfti hann að halda yfir hvern einasta nautgrip á búinu. Í þau þurfti hann að skrá ef hann flutti nautgripina á milli búa. Hann rak þarna tvö bú og ef hann flutti nautgrip frá einu búi yfir á annað þurfti hann að skrá þetta samviskusamlega og kvitta undir. Það sama gilti ef gripir voru fluttir í sláturhús. Það þurfti að kvitta fyrir þegar þeir fóru upp á bílinn og af bílnum. Ef menn eru ekki með réttu vegabréfin með sér eru gríðarlegar fjársektir. Ég spurði hann: Hvað gerirðu svo við þessi blessuðu vegabréf? „Jú, sjáðu til, það sem við gerum við þessi vegabréf er að við rífum út afrit af hverri færslu sem á sér stað. Þetta afrit er svo sent til landbúnaðarstofnunar eða greiðslustofnunar“ — sem hv. þingmaður hefur svo mikinn áhuga á að koma á fót hér á landi — „og þar eru miklir spekingar sem fara yfir þetta allt saman en ég get ekki ímyndað mér að þeir geri nokkurn skapaðan hlut við þetta.“ Hvað gerirðu svo við þetta þegar skepnan fellur frá? „Jú, þá þarf ég að geyma þetta í 5–10 ár því að ég gæti verið beðinn um þessar upplýsingar á einhverjum tímapunkti.“

Af hverju er þetta? Jú, þetta er einmitt það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á í andsvari sínu. Þetta er mikið bírókratí, skrifræði og annað því um líkt. En þetta er líka hugsað í Evrópusambandinu einmitt vegna þeirra miklu sjúkdóma sem þar eru. Þá erum við aftur komin að kjarna málsins með frumvarpinu hér og af hverju svo mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að fara hægt í breytingar með þá stofna sem við eigum hér, að hafa vaðið fyrir neðan okkur og stíga ekki skref sem munu með einhverjum hætti skapa óþarfa áhættu fyrir þá búfjárstofna sem við eigum á Íslandi. Það ferli sem gæludýr ganga í gegnum í dag er ekkert gríðarlega flókið eins og hv. þingmaður kom inn á áðan. Ég get sagt að ég skil vel þau óþægindi sem kunna að hljótast af því þegar einstaklingar þurfa að reiða sig á til að mynda hunda eins og hv. þingmaður þarf að gera. Ég skil vel þau óþægindi sem af því hljótast að geta ekki tekið blindrahund með sér milli landa og því um líkt. En í þessu tilfelli eigum við Íslendingar að halda okkur frá, leika okkur ekki meira að eldinum en orðið er. Það ferli sem gæludýr þurfa að fara í gegnum í dag er ekki það mikið og flókið að gæludýraeigendur sem hyggjast flytja dýr með sér á milli landa geti ekki nýtt það.

Að lokum vil ég aftur þakka hv. þingmanni fyrir frumvarpið. Einmitt með þessum hætti er eðlilegt að þingmenn komi með mál inn á Alþingi sem þeir telja jákvæð hjá Evrópusambandinu. Síðan tekur Alþingi Íslendinga auðvitað afstöðu til einstakra mála og hvort þar sé eitthvað sem við teljum henta íslenskum hagsmunum. Ég tel svo ekki vera með þetta mál en þar er hv. þingmaður mér væntanlega ósammála.